spot_img
HomeFréttirStór Njarðvíkursigur fyrir norðan

Stór Njarðvíkursigur fyrir norðan

00:56

{mosimage}

 (Frá Akureyri í kvöld)

,,Já ég er mjög sáttur, við vorum í bölvuðum vandræðum í fyrri hálfleik og varnarleikurinn bara ekki nægilega góður, langt því frá" sagði Teitur Örlygsson þjálfari Njarðvíkur ánægður í leikslok.  

Í kvöld áttust við Þór og Njarðvík í annarri umferð Iceland Express deildinni í úrvalsdeild karla í kvöld. Þórsliðið sem hóf leiktíðina með því að leggja bikarmeistara ÍR á heimavelli kom fullt sjálfstrausts í þennan leik ætluðu sér svo sannarlega að láta gestina úr Njarðvík hafa fyrir hlutunum. En þrátt fyrir góða byrjun er skemmst er frá því að segja að Njarðvíkingar unnu afar öruggan 28 stiga sigur á heimamönnum, 73-101.

 Leikurinn var þó framan af mjög fjörugur og jafn. Þórsarar voru á köflum skrefinu á undan gestunum og strax þegar 4 mínútur eru liðnar af 1. leikhluta og Þórsarar komnir með 4 stiga forystu tók Teitur leikhlé. Greinilegt að hann ætlaði að stöðva það skrið sem Þórsliðið virtist vera komið á. Það virtist þó lítið hafa að segja því Þór náði 10 stiga forystu með því að keyra upp hraðann og góðri vörn. Njarðvíkingar virtust á þessum kafla vera hálf ráðalausir. Þór leiddi 28-19 í lok fyrsta leikhluta.

Óðinn Ásgeirsson fór fyrir sínum mönnum og átt fyrna góðan leik og var stigahæstur heimamanna með 11 stig, Luka 6 og Cedric 5. Frá þessu er greint á www.thorsport.is  

Njarðvíkingar byrja annan leikhlutan með látum og ná að minnka muninn strax í 3 stig og þá tekur Hrafn leikhlé þegar 1:30 eru liðnar af fjórðungnum og messar hressilega yfir sínum mönnum. Þórsarar skipta yfir í svæðisvörn. Njarðvíkingar virðast hafa vaknað upp af værum blundi og vinna annan fjórðunginn 28-19. Staðan því jöfn þegar liðin ganga til búningsklefa í hálfleik og staðan 47-47. Óðinn og Cedric voru atkvæða mestir heimamanna og skoruðu hvor um sig 7 stig. Allt stefndi í jafnan og skemmtilegan leik. Hafi einhver gert sér vonir um að fá spennandi leik í seinni hálfleiknum, enda gaf sá fyrri ágæt fyrirheit um að svo gæti orðið, þá varð sá hinn sami fyrir miklum vonbrigðum.

Njarðvíkingar komu mjög ákveðnir til síðari hálfleiks og hófu leikinn með miklum látum. Allt gekk upp hjá gestunum á meðan allt virtist ganga á afturfótunum hjá heimamönnum. Njarðvíkingar léku á als oddi og settu m.a. í upphafi leikhlutans 3 þriggja stiga körfur og var þar á ferð Brenton nokkur Birmingham. Hrafn þjálfari Þórs tók leikhlé þegar fjórar mínútur voru liðnar og staðan 50-59. Ræða Hrafns þjálfara hafði engin áhrif á leik heimamanna og nánast ekkert gekk upp hjá liðinu meðan gestirnir juku forskot sitt jafnt og þétt. Njarðvík vann þriðja leikhlutann 14-26 og staðan að honum loknum var 61-73.  Í þessum leikhluta var Óðinn Ásgeirsson atkvæða mestur heimamanna en skoraði þó ekki nema 5 stig. Í liði gestanna var Brenton Birmingham lang atkvæðamestur og fór hreinlega á kostum. 

Fjórði og síðasti leikhluti leiksins var algerlega eign gestanna úr Njarðvík. Þeir höfðu mikla yfirburði á öllum sviðum, hjá þeim gekk allt upp. Á sama tíma má segja að það hafi verið nákvæmlega sama hvað Þórsliðið reyndi það gekk ekkert upp. Þór átti fjöldamörg opin skot allsstaðar af vellinum en ekkert gekk upp. Það var engu líkara en búið væri að setja lok yfir körfuna hjá Þór. Til marks um afleitt gengi Þórs í þessum fjórðung þá kom fyrsta karfan hjá þeim ekki fyrr en eftir þrjár mínútur. Þegar 7:19 mínútur voru eftir af leiknum tók Hrafn leikhlé og þá var staðan 61-80, sem virtist því miður engin áhrif hafa á gengi Þórs. Fór svo að Njarðvíkingar unnu leikhlutann stórt eða 12 – 28.

Cedric Isom var eini leikmaður Þórs sem eitthvað lét að sér kveða í þessum fjórðung og skoraði hann 10 stig af þeim 12 sem liðið gerði. Til marks um vandræðagang liðsins þá segir það talsverða sögu að menn eins og Óðinn, Magnús, Luka og Jón Orri komist í gegnum þennan leikhluta án þess að skora eitt einasta stig. Auk Cedric þá skoraði Bjarni K. Árnason tvö stig í fjórðungnum sem hann skoraði af vítalínunni. 

Stig heimamanna; Cedric Isom 22, Óðinn Ásgeirsson 21, Luka Marolt 10, Jón Orri Kristjánsson 6, Magnús Helgason og Þorsteinn Gunnlaugsson 4 hvor og Bjarni Árnason og Baldur Ingi Jónasson 2 hvor. 

Stigaskor Njarðvíkinga: Jóhann Ólafsson 22, Brenton Birmingham 20 þar af 4 þriggja stiga körfur, Friðrik Stefánsson 14 og Sverrir Þór Sverrisson 11 aðrir með minna. 

Tölfræði leiksins

 

www.thorsport.is

 

Myndir: Rúnar Haukur Ingimarsson

Texti: Páll Jóhannesson

Fréttir
- Auglýsing -