23:10
{mosimage}
Í kvöld lauk 4. umferð Iceland Express deild karla, ÍR tók á móti Skallagrím í Seljaskóla. ÍR vann nauman 2 stiga sigur eftir eldheitar lokamínútur. Eftir að hafa verið yfir meirhluta fjórða leikhluta misstu Skallagrímsmenn niður forskotið og mistókst að jafna metin á lokamínútu leiksinns. Hjá ÍR var Hreggviður S. Magnússon stigahæstur með 19 stig og 7 fráköst, næstir voru Sveinbjörn Claessen og Steinar Arason með 13 stig. Hjá Skallagrím var Milojica Zekovic stigahæstur með 24 stig og 4 fráköst en næstur var Darrel Flake með 21 stig og 19 fráköst.
Fyrir leiktíðina var báðum þessu liðum spáð um miðja deild hér á karfan.is og því mátti búast við hörkuleik. Það varð raunin því leikurinn var hörkuspennandi og bæði lið leiddu með 10 stiga forskoti á einhverjum tímapunkti í leiknum. Leikmenn Skallagríms mættu ákveðnari til leiks og uppskáru 6 stiga forskot eftir fimm mínútna leik. Leikmenn ÍR höfðu fengið aragrúu af færum með góðri vörn og mörgum sóknarfráköstum en lítið ætlaði ofaní körfuna. Skallagrímur hélt þessu 6-7 stiga forskoti fram á síðustu mínútu leikhlutans en þá skoruðu ÍR-ingar 6 seinustu stig leikhlutans með tveimur þriggjastiga skotum frá Hreggviði Magnússyni og Steinari Arasyni, 18-16.
Í upphafi annars leikhluta var hálfgerð upplausn á vellinum í nokkrar mínutur því mönnum fór ekki saman um hver ætti boltan. ÍR-inga höfðu fengið að byrja leikinn og það tók Kenneth Webb, þjálfari Skallagríms, ekki til mála enda átti Skallagrímur allan rétt á boltanum. Þegar þetta var svo komið á hreint gat leikhlutinn hafist. Skallagrímur byrjaði á því að jafna metin í 21-21 strax eftir 2 mínútur og leikurinn spilaðist nokkuð jafn efitr það. Það var svo á lokamínútum leikhlutans að vörn ÍR-inga fór að skila sér með nokkra stiga forskoti. Þeir bættu rólega við það forskot með góðri vörn og flest stig liðsins þessar mínútur komu af vítalínunni. Þessi varnarleikur skilaði sér svo í 8 stiga forskoti í hálfleik 40-32.
{mosimage}
Það var lítil breyting á leik liðana eftir hálfleik en ÍR-ingar héldu þessu 6-9 stiga forskoti. Leikhlutinn var þó mjög líflegur og mætti þakka áhorfendum leiksinns mikið fyrir en þeir tóku vel undir og undirritaður vill nota tækifærið og hrósa stuðningsmönnum Skallagríms fyrir mikil læti sem hleypti miklu lífi í leikinn. Leikhlutinn bauð uppá hraða, mistök, tilþrif á báða bóga, öskur og læti sem gæti kallast uppskrift að góðum körfuboltaleik. Skallagrímur virtist þó ætla að nota stuðningin til góðs undir lok leikhlutans og voru búnir að minnka forskot ÍR niður í 3 stig þegar Hreggviður Magnússon skorar á lokasekúndu leikhlutans eftir nauðungartilraun Steinar Arasonar á þriggjastiga skoti, 59-53
Skallagrímur mætti hins vegar til fjórða leikhluta til þess að vinna og komust yfir í fyrsta skiptið síðan í fyrsta leikhluta strax á annari mínútu með laglegu skoti frá Darrel Flake, 59-60. Við þetta tók Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ÍR leikhlé sem skilaði þó ekki góðum árangri því ÍR tókst ekki að skora fyrstu 5 mínútur leiksinns og stemmdi í illt. Þegar leikhlutinn var hálfnaður voru Skallagrímsmenn komnir með 6 stiga forskot, 59-65, og leikurinn orðinn leikur að dómurum sem virtust láta læti áhorfenda slá sig út af laginu. Það var hins vegar góð ákvörðun Jón Arnars sem skilaði sigrinum því þegar rúmlega fjórar mínútur lifðu af leiknum settu ÍR-ingar í annan gír, þeir spiluðu pressu allan völlin og svæðisvörn sem sló Skallagrím algjörlega út af laginu. ÍR-ingar minnkuðu forskotið smám saman niður og hitinn kominn vel yfir suðumark þegar ÍR jafna í stöðunni 69-69 og aðeins 3 mínútu eftir. Það var vart að sjá hvoru megin sigurinn fæir en svo fór sem fór og Skallagrímsmenn einfaldlega féllu á pressunni, þeir klikkuðu úr lykilskotum á ögurstundu á meðan ÍR-ingar stóðust prófið og settu skotin ofaní. Leikurinn endaði því með 2 stiga sigri ÍR, 76-74, eftir að Darrel Flake skoraði seinustu stig leiksinns fyrir Skallagrím þegar 0,2 sekúndur lifðu á klukkunni.
{mosimage}
Í liði ÍR spilaði Hreggviður Magnússon mjög vel en Hreggviður og Sveinbjörn sýndu það í leiknum að þeir geta tekið af skarið í sóknarleik liðsins þó svo að Sveinbjörn hafi ekki nýtt nema 3 af 10 tveggjastiga skotum sínum þá segir það ekki alla söguna því hann hleypir miklu lífi í sóknarleik liðsinns og það vantar ekki mikið uppá að þessi drengur fari að skila hátt í 20 stigum á leik. Hjá Skallagrím var greinilegt að sóknarleikur liðsinns liggur mikið á turnunum tveimur, Darrel Flake og Milojica Zekovic sem skoruðu rúmlega helming stiga liðsinns á meðan aðrir leikmenn skoruðu sín stig oftar en ekki úr handahófskenndum langskotum.
Texti: Gísli Ólafsson – [email protected]
Myndir: Snorri Örn Arnaldsson



