21:59
{mosimage}
(Helgi hetja KR mundar hér byssuna sem tryggði stigin tvö í kvöld)
KR þurfti helst á kraftaverki að halda í DHL-Höllinni í kvöld og viti menn. Það kom! Helgi Már Magnússon setti niður ótrúlega þriggja stiga körfu um leið og flautan gall og tryggði KR sigur gegn Njarðvík.
Aðeins sjö sekúndur voru til leiksloka, staðan 79-81 Njarðvík í vil og KR á innkast á miðjum leikvellinum. Brynjar Þór Björnsson fékk boltann, brunaði upp á hægri kant og þaðan inn endalínuna, fann Helga Már í vinstra horninu og eins og kaninn segir ,,the rest is history.”
Helgi tók mjög erfitt skot úr vinstra horninu, háan regnbogabolta sem fór beint ofan í og í þokkabót braut Charleston Long á honum. Lokatölurnar því 82-81 KR í vil þar sem Helgi brenndi af vítaskotinu en það skipti engu máli og KR fagnaði gríðarlega þessum ævintýralega sigri á Njarðvík.
Það var kannski við hæfi að leikurinn skyldi enda á jafn dramatískum nótum því áhorfendur áttu það fyllilega skilið þar sem leikurinn hafði verið bragðdaufur og þunglamalegur framan af.
{mosimage}
(Brenton gerði 18 hjá Njarðvík)
KR leiddi 20-19 að loknum fyrsta leikhluta og 43-37 í hálfleik þar sem Joshua Helm var kominn með 18 stig fyrir KR en Brenton Birmingham var með 8 stig í Njarðvíkurliðinu. Friðrik Erlendur Stefánsson, fyrirliði Njarðvíkinga, var kominn með þrjár villur í fyrri hálfleik og varð að passa sig í þeim síðari.
Avi Fogel hafði hægt um sig í fyrri hálfleik hjá KR þar sem hann fékk snemma tvær villur og strax í upphafi þriðja leikhluta fékk hann sína þriðju villu. Hann hélt á bekkinn en kom fljótt aftur inn á og lét vel til sín taka. Njarðvíkingar náðu samt góðri rispu og komust í 58-62 þegar Egill Jónasson, miðherjinn hávaxni, setti niður sinn annan þrist.
Hörður Axel Vilhjálmsson kom Njarðvík í 63-67 þegar hann skoraði og fékk vítaskot að auki þegar 4 sekúndur voru eftir af leikhlutanum. KR-ingar höfðu þó ekki sagt sitt síðasta og Helgi ,,ofurhugi” Magnússon brunaði upp völlinn, upp að körfu og Friðrik Stefánsson braut á honum og fékk sína fjórðu villu. Dýr villa og Helgi þakkaði pent fyrir sig með því að setja niður bæði vítin og staðan 65-67 fyrir síðasta fjórðunginn.
Fjórði leikhluti var mjög spennandi, aldrei meira en 2-5 stig milli liðanna en áfram var leikurinn þunglamalegur en þegar líða tók á leikhlutann rofaði til og liðin sýndu hvað í þeim býr. KR gerði fyrstu 11 stig leikhlutans og Njarðvíkingar skoruðu sína fyrstu körfu þegar 5.30 mín voru til leiksloka. Þar var Sverrir Þór Sverrrisson að verki með þriggja stiga körfu.
{mosimage}
(Helm gerði 30 stig og reif niður 10 fráköst)
Þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka fékk Friðrik Stefánsson sína fimmtu villu og varð frá að víkja. Brenton setti þá fljótlega niður þrist og Sverrir Þór jafnar svo metin fyrir Njarðvík í 77-77. Joshua Helm reyndist Njarðvíkingum erfiður ljár í þúfu í kvöld og af miklu harðfylgi inni í teig kom hann KR í 79-78 en þá svaraði Egill Jónasson á hinum enda vallarins með glæsilegri troðslu og staðan 79-80.
KR mistókst að skora í næstu sókn svo þeir brutu strax á Jóhanni Ólafssyni sem setti niður annað tveggja víta sinna og staðan 79-81 fyrir Njarðvík þegar 7 sekúndur voru til leiksloka.
KR tók leikhlé og hófu því leik á miðjunni. Eins og áður greinir var það samleikur Brynjars og Helga sem skilaði sigrinum og þvílík og önnur eins sigurkarfa hefur vart sést í langan tíma. Boltinn dustaði rykið af járnbitunum í loftinu á DHL-Höllinni og fór þaðan beint í netið og út brutust mikil fagnaðarlæti á meðal KR-inga.
Joshua Helm var vafalítið maður vallarins í kvöld með 30 stig og 10 fráköst en þeir Brenton Birmingham og Charleston Long gerðu báðir 18 stig í Njarðvíkurliðinu, auk þess tók Long 12 fráköst. Þá var Helgi ,,ofurhugi” Magnússon með 11 stig fyrir KR í kvöld og vafalítið þrjú mikilvægustu stig leiksins!
{mosimage}
(Fagnaðarlætin létu ekki á sér standa)



