spot_img
HomeFréttirFimmti Keflavíkursigurinn í röð (Umfjöllun)

Fimmti Keflavíkursigurinn í röð (Umfjöllun)

23:20 

{mosimage}

 

(Anthony Susnjara í baráttunni gegn ÍR í kvöld) 

 

Keflvíkingar eru fjarri því á þeim buxunum að gefa eftir toppsætið í Iceland Express deild karla. Nú í kvöld voru bikarmeistarar ÍR húðflettir í Sláturhúsinu 110-79 þar sem sex leikmenn Keflavíkurliðsins gerðu 10 stig eða meira í leiknum.

 

Liðin skiptust á körfum í upphafi leiks en heimamenn höfðu yfir að loknum upphafsleikhlutanaum 24-20. Í öðrum leikhluta var framan af enn nokkuð jafnræði með liðunum en þegar um þrjár mínútur voru til hálfleiks tóku Keflvíkingar á rás og settu í lás í vörninni.

 

Keflavík beitti ÍR pressuvörn og uppskáru heimamenn auðveldar körfur og staðan 52-39 fyrir Keflavík í hálfleik.

 

Varnarleikurinn var ekki fyrirferðamikill í þriðja leikhluta en Keflvíkingar voru ávallt skrefinu á undan og unnu þriðja leikhlutann 29-24 og staðan því 81-63 og þegar hér var komið við sögu var ljóst í hvað stefndi, öruggan sigur Keflavíkur.

 

Hreggviður Magnússon var sá eini sem virtist með lífsmarki hjá ÍR í kvöld og setti hann niður 29 stig. Keflavík lét tangarhald sitt á leiknum aldrei frá sér og hafði að lokum 110-79 sigur þar sem þeir gerðu 29 stig gegn 16 frá ÍR í síðasta leikhlutanum.

 

Keflvíkingar eru því enn á toppi deildarinnar með fimm deildarsigra í röð og mæta Íslandsmeisturum KR í næstu umferð í Sláturhúsinu. Tommy Johnson var að vanda drjúgur fyrir Keflavík en hann gerði 24 stig og tók 3 fráköst en næstur honum var Anthony Susnjara með 16 stig og 12 fráköst.

 

Eins og áður greinir var Hreggviður Magnússon með 29 stig fyrir ÍR og Sveinbjörn Claessen gerði 12 stig. Ray Cunningham kom til landsins í morgun og lék 15 mínútur fyrir ÍR í kvöld og setti hann niður 5 stig og tók 4 fráköst.

 

Tölfræði leiksins

 

[email protected]

 

Mynd: www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -