15:11
{mosimage}
Það voru margir mættir í Smárann á föstudagskvöldið, þegar Ármann/Þróttur var í heimsókn, og ef til vill flestir mættir til að sjá nýja leikmanninn hjá Breiðablik, Nemanja Sovic. Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn en liðin skiptust á að skora í fyrsta leikhlutanum en Breiðablik skorar síðustu stig leikhlutans og leiða 18-16 eftir 1. leikhluta. Sama barátta heldur áfram í 2. leikhluta. Liðin skiptast á að skora og í lok leikhlutans skorar Kristján Sigurðsson 3ja stiga körfu og Blikar leiða í hálffleik 36-34.
Blikar mættu vel stemmdir til leiks í upphafi seinni hálfleiks og ljóst að Einar Árni Jóhannsson hefur messað vel yfir sínum mönnum í hálfleik. Blikar skora 12 stig á móti 3 stigum Ármanns og þar á meðal setti Kristján Sigurðsson tvær 3ja stiga körfur. Blikar halda áfram góðri vörn og fór leikhlutinn 22-12 fyrir Breiðablik og staðan orðin 58-46 og leit út fyrir að Ármann ætti engin svör við góðum leik Breiðabliks.
En Ólafur Ægisson hjá Ármann neitaði að gefast upp og setti niður tvo þrista og á stuttum tíma var staðan allt í einu orðin 63-58. Ármann hélt áfram að berjast og reyndi eins og þeir gátu að minnka muninn en það var of seint og Blikar skoruðu síðustu 6 stigin og unnu leikinn 85-75.
Kristján Sigurðsson var stigahæstur með 21 stig og 5/9 í 3ja. Nemanja Sovic spilaði einnig vel í sínum fyrsta leik fyrir Breiðablik og var með 15 stig og 7 fráköst. Tony Cornett var með 11 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar og Rúnar Pálmarsson skoraði 10 stig. Einar Árni Jóhannsson þjálfari Breiðabliks dreifði spilatímanum mjög vel hjá Breiðablik og alls voru það 10 leikmenn sem spiluðu yfir 10 mínútur í leiknum og skoruðu þeir allir.
Hjá Ármann/Þrótt var Sæmundur Oddsson með 22 stig, Ólafur Már Ægisson með 17 stig, Ásgeir Hlöðversson með 15 stig og 11 fráköst og Steinar Kaldal með 10 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar.
Bryndís Gunnlaugsdóttir
Mynd: www.breidablik.is



