spot_img
HomeFréttirHver er stefnan Sigmundur?

Hver er stefnan Sigmundur?

6:19

{mosimage}

Körfuboltamenn hafa ósjaldan kvartað sáran yfir skorti á umfjöllun um íþróttina í íslenskum fjölmiðlum. Margir hafa haft hátt á heimasíðum og spjallsvæðum eða hver við annan. Undirritaður var einn af þeim sem hafði allt á hornum sér lengi en ákvað svo að taka upp nýja siði. Hætta að skammast og í þess stað að hrósa því sem vel er gert og vinna að því að aðgengi fjölmiðla sé meira að fréttum úr körfubolta. Meðal annars með því að skrifa á karfan.is.

 

Sjálfum hefur mér þótt umfjöllun verið að aukast undanfarið og ekki mikið hægt að kvarta þó alltaf sé hægt að gera betur.

En síðasta mánudag missti undirritaður málið við lestur á Morgunblaðinu. Á sunnudeginum fóru fram fjórir leiki í Iceland Express deild karla, í Stykkishólmi, á Akureyri, í Grafarvogi og í Njarðvík áttust við Njarðvík og Keflavík. Stórleikur eins og þeir gerast bestir í íslenskum körfubolta. Í Morgunblaðinu mánudaginn 29. október var hálfsíða um alla leikina, slatti um leikinn á Akureyri, aðeins minna um leikinn í Stykkishólmi, 14 línur um stórleikinn í Njarðvík og ekki minnst á leikinn í Grafarvogi. Hvað á svona blaðamennska að þýða? Að Morgunblaðið sem þetta stóra blað sem gefur sig út fyrir að vera vandaður miðill sem er selt í áskrift, ólíkt hinu stóra blaðinu á markaðnum, skuli ekki sjá sér fært að senda mann á stórleik eins og Njarðvík – Keflavík, er óskiljanlegt. Við erum að tala um stórleik í einni af þremur stærstu boltagreinum á landinu. Húsið í Njarðvík var troðfullt og fólk þurfti frá að hverfa en Morgunblaðið sendi ekki mann á svæðið.

Ég ætla að leyfa mér að setja ábyrgðina á stjórn íþróttadeildarinnar. Getur það virkilega verið að stjórnandi deildarinnar hafi ekki sett þær línur að það sé penni á stórleikjum eins og Njarðvík – Keflavík er? Hefur hann kannski ekki lagt neinar línur? Mega þeir sem eru á vakt bara skrifa um það sem þeim sýnist?  Blaðamenn hafa sín áhugasvið, hjá því verður aldrei komist en jafnframt hlýtur það að vera hlutverk þeirra að meta hvað „selur“ og hvað „selur ekki“. Að einhver geti komist að þeirri niðurstöðu að stórleikur í einni af þremur stærstu boltagreinunum á Íslandi selji ekki er mér óskiljanlegt. Hér hlýtur að vanta að yfirmaður leggi línur og láti sína undirmenn fylgja þeim. Má kannski líkja þessu við umfjöllunina um íslenska landslið í knattspyrnu, að stjórnandinn leggi ekki línur fyrir leikmennina sem eru hver í sínu horni að gera það sem þeir vilja.

Einnig það að ekki sé stafur í textalýsingu um leik Fjölnis og Tindastóls er einnig merkilegt. Ég segi það fullum fetum að það mun aldrei koma fyrir að Morgunblaðið segi ekki frá leik í Landsbankadeild karla. Geri mér þó grein fyrir að iðkendur og áhangendur í fótbolta eru töluvert fleiri en í nokkurri annarri grein. Að sama skapi sé það ekki gerast að leik í N1 deildinni sé sleppt, hvað þá að skrifaðar séu 14 línur um stórleik. Samkvæmt tölum ÍSÍ eru svipað margir iðkendur í handbolta og körfubolta svo ekki getur Morgunblaðið borið því við. Miðað við þær tölur sem birtast í fjölmiðlum um áhorfendasókn í þessum tveimur greinum virðist áhuginn allavega ekki vera minni á körfubolta, jafnvel meiri. Hvað er það þá sem fær blaðið til að sleppa leikjum í efstu deild og skrifa jafn lítið um stórleiki og raun ber vitni?

Til samanburðar er vefurinn karfan.is að manna flesta leiki í efstu deild karla og kvenna auk þess sem við erum að manna allflesta leiki í 1. deild karla auk nokkurra leikja í 1. deild kvenna. Á þessum vef fær enginn krónu fyrir sína vinnu. Alls eru um 20 manns sem leggja hönd á plóginn án þess að þiggja nokkuð fyrir annað en ánægjuna að koma körfubolta á framfæri.

Undirritaður sendi tölvupóst á Sigmund Ó. Steinarsson íþróttafréttastjóra Morgunblaðsins á mánudaginn og spurði út í þetta. Hvernig skipulagið væri á þessum hlutum og hvernig það mætti vera að ekki væri fjallað um jafn stóra leiki og Njarðvík – Keflavík. Sigmundur hefur því miður ekki séð sér fært að svara þeim tölvupósti og skýra þeirra sjónarmið.

Það er spurning hvort það hreyfir við honum ef allir þeir sem þetta lesa senda honum póst og hvetja hann til að svara pósti mínum. Netfangið hans er [email protected]

Rúnar Birgir Gíslason

Fréttastjóri karfan.is

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -