15:22
{mosimage}
(Sveppi kitlaði hláturtaugarnar hjá viðstöddum)
Dregið var í forkeppni og 32 liða úrslit í Lýsingarbikar karla í körfuknattleik í dag á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu. Það var hinn góðkunni Sveppi eða Sverrir Þór Sverrisson sem sá um dráttinn að þessu sinni. Þetta er fimmta árið í röð sem keppt er um Lýsingarbikarinn og á fundinum kynnti Guðrún Soffía Björnsdóttir, forstöðumaður þjónustu- og markaðssviðs Lýsingar, til sögunnar nýjan vef sem settur verður í loftið í tengslum við keppnina. Slóðin á vefinn verður www.lysingarbikarinn.is og er áætlað að síðan fari í loftið í kringum fyrstu umferðir bikarkeppninnar.
Alls voru 36 félög skráð til leiks, 8 B-lið og 28 A-lið. Sökum þessa þarf að bregða til forkeppni þar sem fara fram fjórir leikir og verða þeir leiknir á allra næstu dögum. Lýsing kynnti einnig að í umferðunum verða ýmsir leikir í gangi og verður aðalvinningurinn útleystur á sjálfum bikarúrslitadeginum þegar einn heppinn körfuknattleiksunnandi fær bíl til afnota frá Lýsingu í eitt ár. Þá hefur Lýsing verið lengst allra styrktaraðila í bikarkeppni KKÍ eða samfleytt í 5 ár.
Sveppa þarf vart að kynna fyrir þjóðinni og vitaskuld sveik hann ekki í drættinum í dag. Þekking hans á íslenskum körfuknattleik er ekki yfirgripsmikil en það var gaman af honum. Sveppi er mikill ÍR-ingur og þegar hann dró sitt lið úr skálinni sagði hann hátt og snjall: ,,ÍR”
Hannes Jónsson formaður KKÍ tjáði þá Sveppa að ÍR væri ríkjandi bikarmeistari, Sveppi svaraði að bragði: ,,Er það?” Og uppskar mikinn hlátur fyrir vikið.
Benedikt Guðmundsson varð frá að víkja á fundinum um leið og ljóst var að KR myndi mæta KFÍ fyrir vestan. Sveppi greip gæsina á lofti og sagði að Benni væri að flýta sér heim og pakka niður í tösku. Óborganlegur sprelligosi og gaman að hafa hann við dráttinn til þess að létta örlítið á andrúmsloftinu.
Athygli vakti að enginn leikur í 32 liða úrslitum verður millum liða í Iceland Express deildinni. Þá má þess geta að Snæfell B og KV mætast í forkeppninni en KV er Knattspyrnufélag Vesturbæjar sem inniheldur nokkra öfluga söngfugla úr Miðjunni, stuðningsmannasveit KR.
{mosimage}
(Formaðurinn Hannes og Bikarinn góði)
Drátturinn í dag:
Forkeppni (leikið á næstu dögum)
ÍBV-Hamar B
Fjölnir B-Keflavík B
Leiknir-Breiðablik B
Snæfell B-KV
32 liða úrslit
UMFH-UMFG
Valur-Hamar
Reynir-FSu
Ármann-Skallagrímur
ÍBV/Hamar B-Keflavík
Fjölnir B/Keflavík B-Þór Akureyri
KR B-Fjölnir
Leiknir/Breiðablik B-Þór Þorlákshöfn
Mostri-ÍR
Snæfell B/KV-Höttur Egilsstöðum
Valur B-UMFN
KFÍ-KR
Haukar B-Stjarnan
Glói-Þróttur Vogum
Haukar-Snæfell
Breiðablik-Tindastóll
Keppt verður í forkeppninni á næstu dögum en 32 liða úrslitin verða leikin helgina 23.-25. nóvember.
{mosimage}
(Oddur Jóhannsson íþróttafulltrúi KKÍ skráði allt skýrt og skilmerkilega hjá sér svo allt væri nú á hreinu!)



