spot_img
HomeFréttirOf mikið af erlendum leikmönnum segir Jón Kr. Gíslason

Of mikið af erlendum leikmönnum segir Jón Kr. Gíslason

11:00

{mosimage}

Jón Kr Gíslason þarf ekki að kynna fyrir íslenskum körfuknattleiksáhugamönnum. Hann er án efa einn af bestu körfuboltamönnunum sem Ísland hefur alið af sér og óumdeilanlega besti leikstjórnandi sem við höfum átt. Hann var um árabil landsliðsþjálfari A-landsliðs karla og þjálfaði Keflvíkinga með góðum árangri. En Jón hefur líka fengist við þjálfun yngri flokka og í dag stýrir hann tveimur slíkum hjá Stjörnunni í Garðabæ; minnibolta karla og 7. flokki karla. Hann hefur skoðanir á málefnum yngri flokka og telur íslenskum leikmönnum standa ógn af erlendum leikmönnum sem hann telur oft á tíðum ekki vera betri en þá.

 

Jón Kr segir úrvalsdeildarsæti Stjörnunnar hafa mikið að segja fyrir starfið. „Uppgangurinn í körfunni hér í handboltabænum er stöðugur.  Við erum að byggja upp flokkana fyrir neðan þá árganga sem ég hef verið með og nú er svo komið að við eigum um 15 stráka í hverjum árgangi frá árgangi 1995 til 2001.  Sæti í úrvalsdeildinni skiptir sköpum fyrir okkur.  Áhugi drengjanna eykst og þeir fá að sjá allra bestu leikmenn landsins spila í hverri viku“, segir Jón.

Hann leggur mesta áherslu á leikgleði í æfingum og leikjum strákanna sinna og reynir að hafa æfingarnar líflegar og hátt stemmdar. „Mér líkar ekki rólegheita æfingar og þá leiðist mér líka að tala of mikið þó ég leggi auðvitað áherslu á að kenna þeim með fáeinum orðum og síðan er aðalatriðið að þeir æfi og endurtaki aftur og aftur“, segir hann. En hvað með foreldrastarfið? „Foreldrar eru mjög virkir“, segir Jón og bendir á að gott dæmi um það sé væntanleg ferð flokksins á Scania Cup næstu páska, en þar allt komið á fullt í undirbúningi.

{mosimage}

Jón Kr. í baráttunni við Torfa Magnússon árið 1987 

Ef orðatiltækið „gamall í hettunni“ er ekki óviðeigandi, má spyrja Jón sem er gamall í hettunni, að því hver sé munurinn á þjálfun yngri flokka í dag og áður fyrr í „old days“? Jón er ekki í nokkrum vafa um í hverju munurinn liggi; „Almenn þekking á greininni og vænlegum þjálfunaraðferðum er miklu meiri, krafan um betri yngri flokka þjálfara hefur aukist, sem er jákvætt“, segir hann.

En finnst þér félög leggja nægilega rækt við yngri flokkana í dag? „Nú þekki ég ekki nógu vel til annarra félaga, en þó finnst mér þau lið sem við erum að berjast við í a-riðli 7. flokks og minnibolta séu vinna sína vinnu skipulega og byggja sína stráka upp til framtíðar“, segir Jón og bætir við að hjá Stjörnunni sé  afar sterkt unglingaráð starfandi, sem leggi áherslu á fagleg vinnubrögð, bæði í þjálfun og í starfinu í kringum flokkana.

Jón telur óhætt  að segja að Ísland sé að skila upp flottum leikmönnum.“Auðvitað mega vera fleiri fullorðnir þjálfarar í yngri flokkunum“, segir hann, „en mér finnst þó sárt til þess að vita að unglingar geta “sloppið” í gegnum yngri flokkana án þess að vera með grunnatriðin á hreinu“, segir Jón einnig.

Oft hefur verið rætt um skort á samvinnu meðal þjálfara á Íslandi. Hvað finnst Jóni um það? „Auðvitað væri æskilegt að menn eyddu meiri tíma í að vinna saman og læra af hverjum öðrum.  Yngri flokka þjálfarar eru þó næstum allir í starfi/námi og hafa takmarkaðan tíma utan þess sem fer í æfingar og leiki.  Við myndum sjálfsagt bjóða upp á fjölbreyttari æfingar ef við töluðum meira saman“, segir Jón og undir það tekur blaðamaður heilshugar.

{mosimage}

Jón Kr. og Friðrik Ingi Rúnarsson stýrðu landsliði Íslands saman um tíma 

En hvað telur þú vera góðan árangur í yngriflokkastarfi? „Hjá mér eru tvö markmið: 1. að strákunum finnist gaman að stunda íþróttina, 2. að skila strákum upp í meistaraflokk sem eru með grunnatriðin og leikskilning á hreinu ásamt því að vera keppnismenn sem kunna að sigra og tapa“, segir Jón. Honum finnst erfitt að horfa upp á það að 60% leikmanna á vellinum séu erlendir leikmenn og talar um það tæpitungulaust. „Sumir þessara útlendinga eru lítið betri en íslensku strákarnir og taka tíma frá þeim og í einhverjum tilvikum er verið setja peninga í eitthvað sem er lítils virði. Í flestum tilvikum eru Íslendingarnir þá að berjast um að hinar tvær stöðurnar, 2 x 40 mínútur sem skiptast á þá. Það er sjálfsagt lítið að gera við þessari þróun, liðin þurfa bara að gera upp hug sinn af hverju þau eru að keyra meistaraflokkinn.  Er það til þess að veita fólki hreina skemmtun, eða er það hlutverk liðanna að gefa heimamönnum tækifæri til að keppa við aðra góða leikmenn á Íslandi?, spyr hann.

En hvernig er hlúð að íslenskum leikmönnum hjá félögunum að mati Jóns? „Félögin hafa boðið leikmönnum upp á aðstöðu til að ná langt.  Þeir sem hafa náð lengst eru þeir sem hafa einmitt lagt aukalega á sig, t.d. yfir sumartímann, bæði með aukaæfingum og styrktaræfingum.  Ég held að það sé ekki nokkur leikmaður sem geti falið sig á bak við það að aðstaða og stuðningur sé ekki í boði“, segir Jón.

Að lokum, hvernig verður þjálfun barna og ungmenna og áherslum félaga á þau mál háttað í framtíðinni?  „Ég held að við getum lært af fótboltanum, þeir leggja mikla áherslu á að ná í fjöldann, við þurfum að gera það, þannig eykst áhuginn almennt í þjóðfélaginu.  Þá megum við líka gera meiri kröfur til þjálfara, þ.e. að þeir klári ákveðin grunnnámskeið áður en þeim er hleypt í þjálfunina“, segir Jón að lokum og karfan.is þakkar fyrir gott spjall.

[email protected]

Mynd af Jóni og Friðrik: Ljósmyndari ókunnur

Aðrar myndir: Einar Falur Ingólfsson

 

Fréttir
- Auglýsing -