spot_img
HomeFréttirNaumur sigur Íslandsmeistaranna gegn nýliðunum(Umfjöllun)

Naumur sigur Íslandsmeistaranna gegn nýliðunum(Umfjöllun)

21:51

{mosimage}

Íslandsmeistarar KR eru komnir að hlið Grindvíkinga í 2. sæti Iceland Express deildar karla eftir nauman 70-63 sigur á nýliðum Stjörnunnar í DHL-Höllinni. KR hefur nú 10 stig eins og Grindvíkingar en Stjörnumenn eru áfram með 6 stig. Leikurinn var jafn allan tímann en KR-ingar reyndust sterkari á endasprettinum og höfðu loks sigur í tilþrifalitlum og mistækum leik.


Stjörnumenn komust í 0-9 í upphafi leiks en heimamenn náðu ekki að minnka muninn fyrr en tæpar sjö mínútur voru liðnar af leiknum. Avi Fogel minnkaði muninn í 2-9 með skotum af vítalínunni og heimamenn komust inn í leikinn, breyttu stöðunni úr 2-9 í 8-11 og þannig stóðu leikar að loknum fyrsta leikhluta. Sóknarleikur beggja liða var stirðbusalegur og leikurinn í algerum sérflokki hvað leiðindi varðar.

{mosimage}

 

Öllu meira líf var í öðrum leikhluta þar sem Darri Hilmarsson kom grimmur inn af bekknum í liði KR. Íslandsmeistararnir reyndu hvað þeir gátu að hrista nýliða Stjörnunnar af sér en Dimitar Karadzovski var að hitta ágætlega og staðan var 27-21 KR í vil þegar um fjórar mínútur voru til hálfleiks.

{mosimage}

 

Darri var að berjast vel hjá KR en kappið bar hann lítið eitt ofurliði og fékk hann sína þriðju villu. Maurice Ingram var fyrirferðamikill í liði Stjörnunnar, mikil ógn varnarlega séð og reif niður hvert frákastið á fætur öðru. Stjörnumenn gerðu vel að jafna KR og komast svo yfir 29-30 fyrir hálfleik þegar Ingram skoraði lokakörfu fyrri hálfleiks.

{mosimage}

 

Darri Hilmarsson var stigahæstur hjá KR í hálfleik með 9 stig en Maurice Ingram var með 12 í liði Stjörnunnar og hvorki meira né minna en 20 fráköst, Dimitar var svo með 11 stig.

Mistækir tilburðir beggja liða héldu áfram í síðari hálfleik en heimamenn í KR voru sprækari til að byrja með. Áfram tókst Stjörnumönnum þó að halda sér inni í leiknum með dreifbýlisþristum frá Dimitar og Kjartani Atla. Fannar Ólafsson fékk snemma sína þriðju villu í leikhlutanum og Helgi Már Magnússon fékk sína fjórðu og KR-ingar komnir í nokkur villuvandræði.

{mosimage}

 

Joshua Helm var allur annar maður í síðari hálfleik og reyndist Stjörnunni erfiður í teignum. Nýliðarnir gerðu þó vel og börðu sig aftur inn í leikinn og náðu forystunni 45-51 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

{mosimage}

 

Maurice Ingram fór út af vellinum þegar skammt var til loka 3. leikhluta og kom ekki aftur inn í lið Stjörnunnar fyrr en um 5 mínútur voru til leiksloka. Það hafði nokkur áhrif á leik Stjörnunnar sem söknuðu greinilega Ingram þann tíma sem hann sat á tréverkinu. Heimamenn í KR skiptu í svæðisvörn og þá kom verulegt hökt í sóknarleik Stjörnunnar sem urðu oft og tíðum að sætta sig við að taka erfið eða jafnvel ómöguleg skot.

{mosimage}

 

Kjartan Atli Kjartansson jafnaði leikinn í 59-59 en þá breyttu heimamenn leiknum í 64-59. Sigurjón Lárusson minnkaði svo muninn í 66-63 þegar 50 sekúndur voru til leiksloka en KR svaraði að bragði og staðan 68-63 þegar 30 sekúndur voru eftir.

 

KR stóðst áhlaup Stjörnunnar og sigldu lygnan sjó síðustu sekúndurnar er leiktíminn fjaraði út. Naumur 70-63 sigur KR í höfn en deila má um hvort lokatölurnar hefðu átt að vera 73-63 þar sem Avi Fogel virtist ná lögmætu skoti í lokin frá miðjum vellinum og boltinn rataði í netið en dómarar leiksins dæmdu körfuna ekki gilda.


{mosimage}

Joshua Helm var stigahæstur í liði KR með 19 stig en Dimitar Karadzovski gerði 21 stig í liði Stjörnunnar. Maurice Ingram lauk leik með 14 stig og 23 fráköst, hann tók því einungis 3 fráköst í síðari hálfleik.

 

Nýliðar Stjörnunnar eru að stimpla sig inn í Iceland Express deildina með stæl, lögðu Njarðvíkinga að velli í síðasta leik og Íslandsmeistarar KR mega prísa sig sæla með að hafa náð tveimur stigum á heimavelli gegn nýliðunum.

 

Benedikt Guðmundsson þjálfari KR sagði í samtali við KR TV eftir leik að KR hafi hreinlega orðið að vinna leik kvöldsins:

{mosimage}

 

,,Við komum særðir til leiks eftir ömurlegan leik gegn Keflavík um daginn. Menn voru mikið að klikka til að byrja með í kvöld en við stigum upp í fjórða leikhluta og fórum að setja ofan í einhver skot,” sagði Benedikt. ,,Menn voru langt frá því að vera illa stemmdir fyrir leikinn og kannski menn hafi ætlað sér of mikið en ég vil alls  ekki meina að um vanmat að okkar hálfu hafi verið að ræða,” sagði Benedikt.

,,Þeir sem hafa vit á góðum varnarleik eru kannski alveg jafn neikvæðir og margir eflaust eru eftir svona leik,” sagði Benedikt en óhætt er að segja að leikur kvöldins hafi verið hlaðinn mistökum á báða bóga þar sem tilfinnanlega lítið var skorað.

 

Tölfræði leiksins

 

Texti: [email protected]

Myndir: [email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -