8:06
{mosimage}
Það er sannarlega nóg um að vera í körfuboltanum í dag, leikir í mörgum aldursflokkum út um allt land.
Þrír leikir fara fram í dag í Iceland Express deild kvenna en nú eru öll liðin búin að mætast einu sinni og því línur farnar að skýrast nokkuð.
Í Grafarvoginum tekur Fjölnir á móti Keflavík en eins og flestum ætti að vera ljóst hefur Keflavík ekki tapað leik það sem af er móti. Nokkur meiðsli eru þó í þeirra herbúðum en TaKesha Watson og Bryndís Guðmundsdóttir eru báðar meiddar, það kom þó ekki í veg fyrir sigur þeirra í Hveragerði í vikunni. Nýliðar Fjölnis hafa unnið einn leik, í Hveragerði og því ljóst að á brattann verður að sækja fyrir þær, þjálfaraskipti urðu hjá liðinu fyrir skömmu þegar Gréta María Grétarsdóttir leikmaður liðsins tók við liðinu af Nemanja Sovic. Liðin áttust við í 1. umferð í Keflavík og sigraði Keflavík 88-51.
Hamarsstúlkur taka á móti Grindavík. Leikur Hamarsstúlkna hefur verið nokkuð upp og ofan, þær sigruðu Val í Vodafonehöllinni en töpuðu svo fyrir Fjölni á heimavelli. Grindavík hefur einnig valdið nokkrum vonbrigðum og í vikunni lágu þær fyrir KR stúlkum. Fyrri leikur liðanna fór fram í Grindavík og sigraði Grindavík 94-65.
Báðir þessir leikir hefjast klukkan 16 en klukkan 17 tekur KR á móti Haukum. Fyrir tímabilið var KR stúlkum ekki spá neinum stórafrekum, ekki síst þar sem liðið kom inn í deildina þar sem fjölgun varð. En það má aldrei afskrifa „stórveldið“ eins og KR ingar kalla sig. Liðið hefur leikið frábærlega og einungis tapað tveimur leikjum, gegn Keflavík og svo fyrir Haukum í fyrstu umferðinni en þá lék liðið án erlenda leikmanns síns og Haukar unnu 74-71. Það getur því allt gerst í DHL höllinni í dag og með sigri er KR komið í annað sæti deildarinnar.
Það er einnig leikið í 1. deild karla í dag. Hattarmenn taka á móti Þór frá Þorlákshöfn klukkan 15:30 en Hattarmenn eru ósigraðir á heimavelli í vetur en Þórsarar hafa verið á miklu skriði undanfarið, töpuðu fyrstu þremur leikjunum en hafa nú unnið þrjá í röð. Þeir fengu liðsstyrk fyrir ekki svo löngu þegar Hallgrímur Brynjólfsson og Grétar Ingi Erlendsson snéru heim, þá fengu þeir Isaac Westbrooks.
Klukkan 17 hefst svo leikur Reynis og Ármanns/Þróttar í Sandgerði. Reynismenn hafa unnið einn leik í vetur, gegn Þrótti V en Ármann/Þróttur hefur verið að leika vel oft á tíðum enda með margar kempur í sínum herbúðum.
Einn leikur er í 2. deild karla en Leiknir tekur á móti Árvakri í Austurbergi klukkan 14 og þá eru tveir leikir í unglingaflokki karla, Keflavík mætir FSu og ÍR tekur á móti Fjölni.
Þá fara fram þónokkur fjölliðamót. 9. flokkur karla spilar um helgina í Njarðvík, Rimaskóla og Iðu. Minni bolti karla 10 ára spilar á Sauðárkróki og B riðill fer svo fram í Seljaskóla á morgun. Minni bolti kvenna leikur í Keflavík og Flúðum, C riðill fer svo fram í Hveragerði á morgun. 10. flokkur kvenna er í Grindavík, Stykkishólmi og Borgarnesi.
Nóg um að vera í dag og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Mynd: www.vf.is



