7:30
{mosimage}
KR-ingar tóku á móti Banvit BK frá Tyrklandi fyrr í kvöld í DHL-höllinni í EuroCup. Lítið var vitað um styrkleika tyrkneska liðsinns fyrir leikinn en það var víst að leikurinn yrði erfiður fyrir heimamenn. Það varð svo raunin þegar leið á leikinn og eftir að hafa staðið í þeim tyrknesku í fyrr hálfleik áttu þeir lítið í stóra og stæðilega leikmenn Banvit í þriðja leikhluta. Leikurinn endaði svo með 17 stiga sigri Banvit, 79-96. Stigahæstir hjá Banvit voru Donnell Harvey með 24 stig, Umit Sonkel með 21 stig og Yunus Cankaya með 19 stig. Hjá KR var Joshua Helm stigahæstur með 20 stig, næstir voru Avi Fogel með 18 stig, Fannar Ólafsson með 10 stig og Helgi Már Magnússon með 9 stig.
KR-ingar byrjuðu leikinn af krafti og skoraði Avi Fogel fyrstu 5 stig leiksinns við mikinn fögnuð stuðningsmanna KR sem fylltu þó ekki þá viðbót sem upp var sett í DHL-höllinni fyrir leikinn. Leikmenn Banvit voru þó ekki lengi að koma sér inní leikinn og höfðu jafnað í 7-7 þegar 4 mínútu voru liðnar á klukkunni. Leikhlutinn spilaðist nokkuð jafnt eftir það og skiptust liðin á forskotinu. Donnell Harvey kom svo gestunum yfir á lokasekúndu leikhlutans er hann skaut yfir Joshua Helm, 19-20. Stigahæstir eftir fyrsta leikhluta voru Joshua Helm með 6 stig og Avi Fogel með 5 stig fyrir KR en hjá Banvit var Andrew Adeleke með 7 stig og Yunus Sonkel með 5 stig.
Það var strax nokkuð ljóst að yfirburðir gestana í stærð og styrk voru miklir. Donnell Harvey, Umit Sonkel og Andrew Adeleke voru allir gríðarlega miklir undir körfunni og þó svo að sá síðast nefndi hafi ekki fundið sig í kvöld er það greinilega leikmaður sem KR þarf að hafa augun á í seinni leiknum. Í öðrum leikhluta skriðu gestirnir frammúr með sterkum varnarleik en leikmönnum KR skorti möguleika í sókninni og virtist varnaleikur gestanna einfaldlega vera númeri of stór fyrir suma leikmenn KR. Það var hins vegar fyrir frumkvæði Joshua Helm og Avi Fogel , sem spiluðu mjög vel í sóknarleik KR allan leikinn, að KR hélt vel í við gestina framan af. Eftir fjórar mínútur af öðrum leikhluta var forskot Banvit orðið 6 stig, 24-30 en það gekk lítið í sóknarleik KR. Pálmi Sigurgeirsson átti hins vegar góða innkomu í öðrum leikhluta og var óhræddur við að keyra á gestina. Þetta hefðu fleiri leikmenn KR mátt leika eftir þó svo að varnarmúr gestana væri óneitanlega ógnvænlegur undir körfunni. Banvit náðu þó ekki að bæta mikið við forskot sitt sem var um 6 stig allan leikhlutan. Það kom sér svo mjög vel fyrir KR að Andrew Adeleke klaufaðist til að fá á sig dæmdan ruðning tvær sóknir í röð og var eftir það hvíldur með 4 villur fram í fjórða leikhluta. Munurinn var svo orðin 9 stig þegar flautað var til háflleiks, 39-48. Stigahæstir í hálfleik hjá KR voru Avi Fogel og Joshua Helm með 11 stig hvor en hjá Banvit voru það Umit Sonkel með 14 stig og Andrew Adeleke með 10 stig.
Í þriðja leikhluta virtust KR-ingar vera að lenda í villuvandræðum en strax í upphafi leikhlutans fékk Fannar sína fjórðu villu, Helgi Már var kominn með 3 og margir leikmenn KR komnir með 2 villur. Hinn margumtalaði fyrrum NBA leikmaður Donnell Harvey tók þrijða leikhluta í sínar hendur en hann skoraði rétt tæplega helming stiga gestana í leikhlutanum eða 14 stig. Þrátt fyrir góða vörn Joshua Helm á tröllið var hann illviðráðanlegur þegar hann fékk boltan undir körfunni en hann sýndi það í leiknum að hann er gríðalegur íþróttamaður. Banvit bættu smám saman í forskotið en það var 10 stig þegar leikhlutinn var hálfnaður en náði mest 17 stigum. Ennþá voru KR-ingar í vandræðum sóknarlega að finna lausnir á góðum varnarleik gestana og virtist einstaklingsframtak Joshua Helm og Avi Fogel halda sínum mönnum á floti. Það kom undirrituðum á óvart að sterkir leikmenn á borð við Helga Már og Jovan Zdravevski sýndu ekki sínar sterkustu hliðar í kvöld og verða KR-ingar að fá töluvert meira frá þeim í síðari leiknum ætli þeir að eiga séns. Þegar leikhlutanum lauk var munurinn 16 stig á, 61-77 og leikurinn svo gott sem úti fyrir KR-inga. Eftir leikhlutan voru sem fyrr Joshua Helm og Avi Fogel stigahæstir hjá KR með 16 stig hvor en hjá Banvit voru það Donnell Harvey með 20 stig og Umit Sonkel með 17 stig.
Gestirnir byrjuðu svo fjórða leikhluta af krafti og juku forskotið strax í 22 stig eftir 4 mínútur, 64-86. Það vottaði fyrir uppgjöf í KR liðinu og virtist sem þeir væru að játa sig sigraða á tímabili. Það viðhorft breyttist þó þegar leið á leikhlutan en þeir náðu að saxa aftur á forskot gestana undir lok leikhlutans en KR hafði betur 11-5 seinustu fimm mínútur leiksinns. Þessi kafli kom þó alltof seint og þurftu KR því að játa sig sigraða í kvöld, 79-96.
Leikur KR í kvöld var þrátt fyrir úrslitin langt frá því að vera bara neikvæður en ljósir punktar kvöldsinns voru margir. Joshua Helm sýndi það í kvöld hversu er gríðarlega sterkur leikmaður hann er og þrátt fyrir að spila á móti mönnum sem voru stærri en hann á alla kanta sýndi hann gríðarlega baráttu og spilaði ótrúlega vörn á Donnell Harvey á köflum. Pálmi Sigurgerisson átti góðan leik þær fáu mínútur sem hann fékk en hans akkelisarhæll var kannski varnarleikurinn þar sem hann varð undir í baráttu við líkamlega sterkari menn. Stuðningsmannasveit KR-inga hafði ótrúlegt úthald og sungu KR-söngva allan leikinn sama hvað gekk á inná vellinum og eiga hrós skilið fyrir vikið. Það var hins vegar synd hversu lítið aðrir áhorfendur á vellinum tóku undir með þeim.
KR eiga að mati undirritaðs mikið inni sóknarleg séð fyrri seinni leikinn og þurfa Helgi Már, Jovan og Brynjar Þór allir að taka af skarið en þeir geta allir spilað betur en þeir gerðu í kvöld. Það verður því spennandi að sjá KR spila úti í Tyrklandi en KRTV gaf það út í háflleik í leiknum í kvöld að þeir hafa fengið leyfi til að sýna seinni leikinn ef tæknin leyfir og fá þannig íslenskir körfuknattleiksunnendur annað tækifæri til að sjá þessi lið mætast.
Stig KR
Joshua Helm 20 stig
Avi Fogel 18
Fannar Ólafsson 10
Helgi Már Magnússon 9
Pálmi Sigurgeirsson 8
Jovan Zdravevski 6
Skarphéðinn Ingason 5
Brynjar Þór Björnsson 4
Stig Banvit
Donnell Harvey 24
Umit Sonkel 21
Yunus Cankaya 19
Andrew Adeleke 12
Inag Kog 7
Caner Topaloglu 6
Derya Yannier 5
Michael Benoit Mokongo 2
Gísli Ólafsson
Mynd: Snorri Örn Arnaldsson



