spot_img
HomeFréttirReggie Miller sagði satt: New York er brandari!

Reggie Miller sagði satt: New York er brandari!

10:00 

{mosimage}

 

(Skuggalegir! Garnett og Pierce niðurlægðu Knicks í nótt) 

 

Boston Celtics tók New York Knicks í eftirminnilega kennslustund í NBA deildinni í nótt þegar Celtics skelltu Knicks 104-59. Þetta var stærsti sigur Boston Celtics síðan Larry Bird var nemi í high school og þriðja versta tap í sögu Knicks. Þá voru stigin 59 næstversta stigaskor Knicks síðan skotklukkan var tekin til notkunar í NBA deildinni.

 

Fyrir leikinn hafði Reggi Miller, fyrrum leikmaður Indiana Pacers, það á orði að New York væri brandari. Stefán Þór Borgþórsson, fréttaritari hjá Karfan.is, skrifaði þar frétt um málið og hér er smá útdráttur frá þeim orðum sem Miller lét falla:

 

,,Einmitt núna eru þeir brandari í deildinni,” sagði Reggie Miller um lið New York Knicks. ,,Það er sorglegt vegna þess að þetta er sögulegt og merkilegt félag. En fólk heldur að þeir séu brandari.”

 

Óhætt að segja að Miller hafi hitt naglann á höfuðið og stjörnuleikstjórnandinn Stephon Marbury var ekki kátur með frammistöðu liðs síns í leikslok: ,,Auðvitað fer ég hjá mér. Við töpuðum með næstum því 50 stiga mun. Ég er reiður. Ég er alltaf reiður þegar ég tapa en þetta var bara vandræðalegt. Að tapa jafn illa var hreint út sagt fáránlegt,” sagði Marbury og þegar maður rýnir í orð kappans sést að hann segir – …ég er alltaf reiður þegar ég tapa (I'm always angry when I lose) – margir í Bandaríkjunum myndu túlka þetta tiltekna ,,ÉG” sem einmitt það vandamál sem hrjáir Knicks. ,,There is no I in team.”

Paul Pierce og Ray Allen fóru fyrir sterku liði Boston í nótt en þeir gerðu báðir 21 stig í leiknum. Pierce var auk þess með 8 fráköst. Nate Robinson var stigahæstur í slöku liði Knicks með 11 stig. Þá vakti einnig athygli að Celtics slökktu algerlega í Zach Randolph sem gerði aðeins 4 stig í leiknum á tæpum 18 mínútum. 

Önnur úrslit næturinnar urðu þau að LA Lakers burstaði Denver Nuggets 127-99 þar sem Kobe Bryant gerði 24 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 6 fráköst. Alls voru sjö leikmenn í liði Lakers sem gerðu 10 stig eða meira í leiknum. Stjörnutvíeykið Allen Iverson og Carmelo Anthony voru að vanda atkvæðamestir í liði Nuggets. Anthony gerði 23 stig og Iverson var með 21 stig. 

Þá hafði Golden State Warriors 113-94 sigur á Houston Rockets og þar með unnu Warriors sinn fimmta leik í röð og bundu enda á þriggja leikja sigurgöngu Rockets. Baron Davis gerði 27 stig fyrir Warriors í nótt ásamt því að gefa 8 stoðsendingar og taka 5 fráköst. Hetja Rockets, Tracy McGrady, gerði aðeins 11 stig í leiknum á 34 mínútum en stigahæstur í liði Rockets var Mike James með 19 stig.  

[email protected]  

Mynd: AP

Fréttir
- Auglýsing -