11:16
{mosimage}
(Jóhannes leggur línurnar fyrir KR liðið í gær)
Jóhannes Árnason þjálfari nýliða KR vissi vel fyrir leik KR og Keflavíkur í gærkvöldi hvers megnung Monique Martin væri. Jóhannes sagði í samtali við Karfan.is að Monique væri nú hætt að koma sér á óvart. KR lagði Keflavík í Iceland Express deild kvenna í gær 90-81 þar sem Monique Martin gerði 65 stig fyrir KR og fór gersamlega á kostum í sigri nýliðanna.
Jóhannes, hefur þú orðið vitni að annarri eins frammistöðu?
,,Nei, þetta var rosalegt. Hún er nú eiginlega hætt að koma mér á óvart þegar hún lætur svona,” sagði Jóhannes í léttum dúr en hann hefur mikið dálæti á bandaríska leikmanni sínum. ,,Monique er frábær sóknarmaður sem frákastar vel, er að verja skot og almennt verjast vel,” sagði Jóhannes og bætti við að tapleikur KR fyrr á leiktíðinni í Keflavík hefði setið í sínum liðsmönnum.
,,Stelpurnar voru mjög fúlar yfir því að hafa tapað leiknum í Keflavík, þeim fannst forlögin vera að svindla á sér. Síðan þá höfum við ekki tapað leik og stelpurnar eru farnar að fá það á tilfinninguna að þetta sé í þeirra höndum hvort þær vinni eða tapi leikjum og þær eru allar virkilega einbeittar í þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur,” sagði Jóhannes sem fyrirskipaði sínu liði að keyra vel á Keflavík í gær.
,,Vissulega var það dagsskipunin að keyra á Keflavík. Þá er það líka þannig að þeir sem þekkja mig vita að ég elska varnarleik og við reynum að spila eins góðan varnarleik og við getum. Ef þú spilar góðan varnarleik þá endar boltinn í höndunum á þér á einn eða annan hátt,” sagði Jóhannes og bætti við að með góðum varnarleik KR þá gæti liðið verið að keyra hraðaupphlaupin í samræmi við það.
Er KR í vandræðum ef Monique lendir á slæmum degi?
,,Já, hún hitti á miður góðan dag í fyrsta leiknum gegn Keflavík á útivelli og þá töpuðum við. Þá er ekki hægt að krefja neinn um 65 stiga frammistöðu í hverjum leik. Það er nú bara þannig að það lenda flest lið í vandræðum þegar þeirra helsti skorari hittir á dapran dag,” sagði Jóhannes og játti því að sigurinn gegn Keflavík í gær hefði verið einn hans stærsti sem þjálfari í efstu deild.
,,Ég sagði við stelpurnar að þetta væri bara einn af fjölmörgum leikjum í vetur þar sem við þyrftum bara að mæta og framkvæma hlutina eins og við höfum lagt þá upp. Það er hálft mótið eftir og Keflavík verður áfram okkar helsti andstæðingur en vonandi höldum við bara áfram að vera þeim erfiður ljár í þúfu því við ætlum ekki að gefa toppsætið auðveldlega eftir,” sagði Jóhannes kátur með frammistöðu KR-inga.



