spot_img
HomeFréttirÖflugur endasprettur Vals gerði út um Fjölni (umfjöllun)

Öflugur endasprettur Vals gerði út um Fjölni (umfjöllun)

21:45
{mosimage}

(Tinna Sigmundsdóttir brýtur sér leið upp að körfu Fjölnis) 

Valskonur lönduðu sínum þriðja deildarsigri á tímabilinu í Iceland Express deild kvenna er þær lögðu nýliða Fjölnis 89-70 í Vodafonehöllinni í kvöld. Molly Peterman átti stórleik í liði Vals með 34 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar. Þær Slavica Dimovska og Birna Eiríksdóttir voru stigahæstar hjá Fjölni, báðar með 23 stig. Eftir sigurinn eru Valskonur í 5. sæti deildarinnar með 6 stig en Fjölnir situr áfram á botninum með 2 stig eftir 12 leiki. 

Fjölmarga lykilmenn vantaði í lið Vals í kvöld en það hindraði ekki Hlíðarendastúlkur í því að ná í bæði stigin. Landsliðsmiðherjinn Signý Hermannsdóttir var fjarri góðu gamni sökum anna í námi, þá var Lovísa Guðmundsdóttir ekki í hópnum og ekki heldur þær Helga Þorvaldsdóttir og Cia Steinsen sem reyndar fylgdist með af bekknum í kvöld. Þá var Stella Kristjánsdóttir ekki með Val og Kristjana B. Guðmundsdóttir var einnig fjarri góðu gamni. Ekki amalegt að ná tveimur stigum þegar jafn miklar fallbyssur vantar í hópinn. 

Dimovska minnkaði muninn fyrir Fjölni í 18-14 í fyrsta leikhluta með góðri þriggja stiga körfu en Valur gerði næstu fimm stig og lauk upphafsleikhlutanum í stöðunni 23-14 Val í vil sem var einvörðungu í svæðisvörn. Hrund Jóhannsdóttir lét mikið fara fyrir sér í teignum fyrir Fjölni í öðrum leikhluta en hún tók alls 9 fráköst í leiknum. Svæðisvörn Val var enn að gera Fjölni skráveifu sem fundu ekki oft smugu upp að körfunni og þurftu oft að sætta sig við skot utan af velli. Fjölnir var þó aldrei langt undan og staðan í leikhléi var 45-36 fyrir Val.  

Molly Peterman var komin með 20 stig í hálfleik fyrir Val í hálfleik og Slavica Dimovska 16 hjá Fjölni. Frumkvæðið í leiknum var áfram í höndum Vals í þriðja leikhluta en Fjölniskonur unnu á og náðu að minnka muninn í 63-56 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Helga Jónasdóttir sem var að leika sinn fyrsta leik í langan tíma fékk sína fjórðu villu í liði Vals þegar skammt var til loka leikhlutans. Helga lék með ÍS fyrir skemmstu en hefur nú tekið fram skónna að nýju og skilaði miðherjastöðunni með miklum sóma í liði Vals enda þaulreyndur leikmaður og ánægjulegt að sjá til hennar inni á vellinum að nýju. 

{mosimage}

(Helga Jónasdóttir í baráttunni undir körfunni)

Gestirnir úr Grafarvoginum hófu fjórða leikhluta af miklum krafti og náðu að minnka muninn í 67-65 eftir þriggja stiga körfu frá Birnu Eiríksdóttur. Fyrir vikið tók Rob Hodgson, þjálfari Vals, leikhlé og lagði á ráðin með sínum leikmönnum. Rob hafði lausnina og að loknu leikhléi var aðeins eitt lið inni á vellinum. Valskonur juku muninn jafnt og þétt og höfðu að lokum öruggan 19 stiga sigur, 89-70. 

Þær Molly Peterman, Tinna B. Sigmundsdóttir og Þórunn Bjarnadóttir leiddu Val til sigurs. Molly Peterman með 34 stig, 12 fráköst og 4 stoðsendingar en Þórunn gerði 18 stig tók 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Þá var Tinna með 16 stig, 12 stoðsendingar og 7 stolna bolta. Slavica Dimovska gerði 23 stig fyrir Fjölni sem og Birna Eiríksdóttir og Efemía Sigurbjörnsdóttir gerði 11 stig. 

Tölfræði leiksins 

Gangur leiksins:

12-9, 18-10, 23-14, 30-21, 32-38, 45-36, 63-56, 67-65, 76-67, 80-68, 89-70. 

[email protected]

{mosimage}

(Slavica á ferðinni)

{mosimage}

(Molly Peterman sækir að Slavicu í Vodafonehöllinni)

Fréttir
- Auglýsing -