spot_img
HomeFréttirSigurður Ingimundarson: Evrópukeppnin er stór heimur

Sigurður Ingimundarson: Evrópukeppnin er stór heimur

21:00
{mosimage}

(Sigurður og Hannes Jónsson handsala samninginn um að Sigurður verði áfram með landsliðið) 

Þjálfarinn Sigurður Ingimundarson verður með karlalandsliðið áfram næstu tvö árin en samning þess efnis undirritaði hann nú fyrr í þessari viku. Karfan.is náði Sigurði í yfirheyrslu og hann setur stefnuna á A deild og vill skapa meiri samkennd og áhuga fyrir körfuboltalandsliðinu. 

Hver eru markmið landsliðsins að svo stöddu?
Við ætlum okkur sem og körfuknattleiksforystan að hækka allan standard í kringum liðið og gera umgjörðina betri og flottari. Umhverfið hjá landsliðum í Evrópuboltanum er þannig að annaðhvort ertu með 24 bestu landsliðum álfunnar eða þér hefur mistekist og það eru skrýtnar kröfur. Við stefnum klárlega á A deild og gerum okkar besta til þess en ásamt því eru okkar markmið að hækka allan standard á íþróttinni hér og það skiptir gríðarlegu máli. Til að ná þessu þarf gríðarlegt átak allsstaðar, standardinn er góður og betri kannski en menn gera sér grein fyrir en það er alltaf hægt að gera betur og það er vonandi það sem okkur tekst að gera.  

Evrópukeppnin í karlaflokki endaði fyrir okkur á háu nótunum með stórum og þýðingarmiklum sigrum. Hvernig er hljóðið í leikmönnum landsliðsins fyrir framhaldinu, eru hugur í þeim?
Kostirnir við þetta fyrirkomulag er sá að eftir tímabil landsliðsins taka félagsliðin við og eftir þessa keppni er landsliðinu ekki heimilt að halda úti æfingum svo ég hef ekki farið yfir málin með öllum leikmönnunum. Hef heyrt í einum og einum og menn vilja allir fara lengra með landsliðinu, það er alveg klárt mál. 

Er það sérstakt áhyggjuefni fyrir landsliðið að 9 af 10 stigahæstu leikmönnum deildarinnar hér heima skuli vera erlendir leikmenn?
Svolítið, ég held að sé svolítið áhyggjuefni en á móti kemur tel ég að deildin sé mjög sterk og miklu sterkari en margir gera sér grein fyrir. Það er hægt að skoða margar deildir í kringum okkur og það eru margar þeirra ekki jafn sterkar og okkar. Þú þarft að fara á ansi hátt stig til að komast í betri deild en hér á Íslandi.  

Erum við með sterkari deild hér heima en t.d. Noregur, Svíþjóð og Danmörk?
Allavega ekki síðri, alveg klárlega og við erum jafnvel að nálgast Finnland. Ég er harður á því að þessi deild er orðin mjög sterk hér á Íslandi því það er ekkert lið hjá okkur sem er ekki gott. Standardinn hjá flestum er mjög hár og þó erlendir leikmenn í sumum liðum skori meira en hinir leikmennirnir þá er það ekkert endilega áhyggjuefni. Þetta eru kannski lið sem eru ekki með landsliðsmenn í sínum röðum og þau kannski fá inn menn til að sjá um stigaskorið á meðan aðrir leikmenn sinna betur öðrum þáttum leiksins. Við sjáum að í efstu liðunum er ekkert endilega mikið af stigaháum erlendum leikmönnum, kannski einn af tveimur eða þremur. Annars mættu vera fleiri íslenskir atvinnumenn. 

Þú segir að atvinnumennirnir okkar mættu vera fleiri, eru fleiri dyr að opnast fyrir okkar körfuboltamenn í þessum efnum?
Það er pottþétt að þessir strákar okkar eru nægilega góðir. Það gæti jafnvel vantað betri kynningu á okkar leikmönnum og þeir mega jafnvel þurfa að sætta sig við að fara í minni deildir til að byrja með og vinna sig upp í þeim. Þá mega þeir líka stundum vera aðgangsharðari en mér sýnist samt á mörgum hér að þeir vilji spila heima og það er ekkert að því og mér finnst frábært að deildin hér heima skuli vera jafn sterk. 

Á síðustu fjórum árum sem landsliðsþjálfari hefur þú leitað fanga víða og jafnan kallað inn breiða hópa á æfingar. Verður þú áfram með þessa stefnu við æfingar landsliðsins? Munt þú kalla til marga til að gera atlögu að sætum í liðinu?
Það er alveg pottþétt. Margir sem voru valdir í fyrra og margir aðalmenn í liðinu voru ekki í fyrra. Tók inn sterka nýliða sem létu snemma að sér kveða og vonandi tekst að fá þá samkeppni í liðið að menn þurfi virkilega að hafa fyrir því að spila sig inn í liðið. Við erum með fullt af leikmönnum sem geta gert tilkall í liðið. 

Hvenær mun landsliðið hefja sinn undirbúning fyrir Evrópkeppnina sem hefst í ágúst?
Fljótlega eftir að deildarkeppninni lýkur. Það er í enda maí, byrjun júní sem landsliðið má byrja, það er ekki fyrr. Að sjálfsögðu verðum við búnir að vinna helling í okkar málum fyrir það. 

Verður fjöldi æfingaleikja ásamt Norðurlandamótinu fyrir Evrópuverkefnið?
Núna fljótlega verður leikskráin okkar kláruð og næstu tvö ár verða sett upp. Það hefur verið svona 5-7 leikir fyrir Evrópumót og þeir verða aldrei fleiri þar sem það er ekki pláss fyrir það.  

Mikill hugur í öllu starfinu, hvað er átt við með því?
Menn muna að í fyrra var allt trappað niður og unnið í innri málum. Nú hefur mikið og gott starf verið unnið og jákvætt fólk í hreyfingunni. Þá hafa góðir samningar náðst við styrktaraðila og við höfum nú orðið tækifæri til að vinna með liðið á þann hátt sem við viljum. 

Er tækifæri til að sækja og skapa samkennd í hjörtum þjóðarinnar fyrir körfuboltalandsliðinu?
Já, ég held það. Í raun er alveg kominn tími á að látið verði meira með landsliðið. Evrópukeppnin er stór heimur og allt sem við getum fengið til að hjálpa okkur væri vel þegið.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -