10:03
{mosimage}
(Kidd klifrar upp metorðastigann í stoðsendingum)
Boston Celtics gerðu 35 stig gegn 13 frá Sacramento Kings í öðrum leikhluta í leik liðanna í nótt og lögðu þar með góðan grunn að 69-89 sigri sínum í leiknum. Þetta var fyrsti sigur Boston á Vesturströndinni þetta tímabil.
Ray Allen var stigahæstur í liði Boston með 17 stig og 3 fráköst en hjá Kings var Ron Artest með 15 stig og 6 fráköst.
Philadelphia 76ers höfðu góðan heimasigur gegn Miami Heat í Wachovia Center 96-85. Andre Igoudala gerði 28 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í liði 76ers en hjá Heat var Dwyane Wade með 27 stig og 9 stoðsendingar. Miðherjinn Shaquille O´Neal tók 10 fráköst í leiknum og er því kominn með 11,606 fráköst í deildinni. Hann þarf aðeins tvö fráköst til viðbótar til að komast fram úr hetjunni Patrick Ewing sem er í 22. sæti yfir frákastahæstu leikmenn NBA deildarinnar frá upphafi með 11,607 fráköst.
Washinton Wizards gengur vel að galdra fram nýja leikmenn sem geta tekið af skarið í sókninni í fjarveru Gilbert Arenas. Agent Zero verður frá fram í mars eftir hnéaðgerð og síðan hans nærveru hefur ekki notið við hafa margir tekið við keflinu. Í nótt voru það Caron Butler og Roger Mason sem sáu helst um að afgreiða Charlotte Bobcats 108-104. Mason gerði persónulegt met í NBA deildinni er hann setti niður 24 stig en hann hefur m.a. leikið tvö tímabil í Ísrael en er nú að finna sér fótfestu í NBA deildinni. Antwan Jamison var þá með 26 stig og 14 fráköst fyrir Wizards og Caron Butler gerði 25 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók 7 fráköst fyrir Wizards. Hjá Bobcats var Gerald Wallace ekki fjarri því að landa þrennu með 32 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar.
Atlanta Hawks lagði Indiana Pacers 107-95 á heimavelli þar sem sex leikmenn Hawks gerðu 10 stig eða meira í leiknum. Þeirra stigahæstur var Joe Johnson með 26 stig og 11 stoðsendingar. Hjá Pacers var Troy Murphy með 19 stig.
Orlando Magic lögðu New York Knicks 110-96 í Amway Arena í Orlando í nótt. Hinn 22 ára gamli Dwight Howard landaði sinni elleftu tvennu í röð í nótt er hann gerði 16 stig og tók 11 fráköst í liði Magic. Stigahæstur hjá Magic var Hedo Turkoglu með 26 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Jamal Crawford gerði svo 29 stig fyrir Knicks, gaf 8 stoðsendingar og tók 4 fráköst.
Detroit Pistons skelltu gestgjöfum sínum í New Jersey Nets í nótt, 83-101. Rip Hamilton var með 22 stig í liði Pistons en Vince Carter gerði 21 stig í liði Nets og gaf 5 stoðsendingar. Jason Kidd gerði aðeins 2 stig í leiknum en gaf 13 stoðsendingar sem setur hann í sjötta sætið yfir stoðsendinga hæstu leikmenn NBA deildarinnar frá upphafi. Hann er með samtals 8,972 stoðsendingar.
Memphis Grizzlies lágu heima gegn New Orleans Hornets 98-116. Chris Paul fór á kostum í liði Hornets með 40 stig, 9 stoðsendingar, 5 fráköst og 5 stolna bolta. Þeir Mike Miller og Rudy Gay voru stigahæstir í liði Grizzlies, báðir með 19 stig.
San Antonio Spurs lögðu Chicago Bulls í nótt 94-79 þar sem Tony Parker gerði 28 stig og gaf 5 stoðsendingar fyrir Spurs. Hjá Bulls var Joe Smith með 19 stig og 11 fráköst.
230 stig litu dagsins ljós í viðureign Denver Nuggets og Milwaukee Bucks í nótt. Denver hafði 125-105 sigur í leiknum þar sem Carmelo Anthony gerði 29 stig í liði Denver og tók 10 fráköst. Mo Williams var stigahæstur hjá Bucks með 28 stig og 7 stoðsendingar.
Utah Jazz og Dallas Mavericks mættust í hörkuslag í Salt Lake City í nótt þar sem heimamenn fóru með mikilvægan 9 stiga sigur af hólmi. Lokatölur leiksins voru 99-90 Jazz í vil þar sem Carlos Boozer gerði 21 stig og tók 9 fráköst í liði Jazz. Hjá Dallas var Dirk Nowitzki með 20 stig og 9 fráköst.
Golden State Warriors höfðu nauman 105-101 sigur á Minnesota Timberwolves í nótt. Monta Ellis sem er á sínu öðru ári í NBA deildinni gerði 35 stig fyrir Warriors og tók 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Al Jefferson var svo með skrímslatvennu í nótt í liði Minnesota með 20 stig og 19 fráköst.
Mynd: AP



