spot_img
HomeFréttirHelena Sverrisdóttir Íþróttamaður Hafnarfjarðar 2007

Helena Sverrisdóttir Íþróttamaður Hafnarfjarðar 2007

06:00
{mosimage}

 

(Helena með fullt fang verðlaunagripa í gærkvöld)

 

Í kvöld varð Helena Sverrisdóttar annar körfuknattleiksmaðurinn til þess að verða útnefndur Íþróttamaður Hafnarfjarðar. Margir voru til kallaðir sem gerðu sterkt tilkall í titilinn, íþróttahetjur á borð við sundmanninn Örn Arnarson og golfarann Björgvin Sigurbergsson en Helena varð hlutskörpust í valinu enda glæsilegt ár að baki hjá þessari sterkustu körfuknattleikskonu þjóðarinnar.

 

Helena var lykilleikmaður í liði Hauka sem unnu alla titla á leiktímabilinu 2006-2007 og var auk þess lykilleikmaður með landsliðinu. Helena var á dögunum útnefnd körfuknattleikskona ársins af stjórn KKÍ.

Helena er aðeins annar körfuknattleiksmaðurinn sem er útnefndur Íþróttamaður Hafnarfjarðar en Pálmar Sigurðsson var Íþróttamaður Hafnarfjarðar 1984 og 1988. Þá er hún aðeins sjötta konan til þess að verða sæmd þessum titli af Hafnarfjarðarbæ.

Helena er í dag leikmaður háskólaliðsins TCU í Bandaríkjunum og í dag, föstudag, mun hún halda áleiðis til Bandaríkjanna að loknu jólafríi en hún og liðsfélgar hennar í TCU eiga leik fyrir höndum á laugardag. 

 

,,Ég fékk að vita það aðeins fyrir jól að ég yrði útnefnd og fékk því leyfi hjá þjálfurum mínum úti til að vera aðeins lengur á Íslandi,” sagði Helena í samtali við Karfan.is. Leyfið til að vera lengur hér á Fróni kom þó ekki að kostnaðarlausu. ,,Ég missti byrjunarliðssætið fyrir vikið,” sagði Helena sem sagði útnefninguna hafa komið skemmtilega á óvart.

 

,,Hafnarfjörður er þvílíkur íþróttabær en við í Haukum áttum rosalega gott ár og við valið á Íþróttamanni Hafnarfjarðar voru frábærir íþróttamenn í hópnum svo þetta kom skemmtilega á óvart,” sagði Helena sem hefur nú aðra baráttu við að koma sér inn í byrjunarlið TCU.

 

Að leik loknum á laugardag hefst svo riðlakeppnin í háskólaboltanum hjá Helenu en fram að þessu hafa stakir leikir farið fram.

 

[email protected]  

Fréttir
- Auglýsing -