spot_img
HomeFréttirDýrmætur Stólasigur gegn nýliðunum (Umfjöllun)

Dýrmætur Stólasigur gegn nýliðunum (Umfjöllun)

23:30

{mosimage}

(Stólarnir lönduðu mikilvægum sigri á heimavelli í kvöld) 

Tindastóll og Stjarnan mættust í kvöld í Síkinu á Sauðárkróki. Fyrirfram var búist við hörkuleik þar sem þetta voru liðin í 9. og 10. sæti deildarinnar og hvert stig dýrmætt í neðri hlutanum. Hópurinn sami hjá Stólunum og í síðasta leik og byrjunarliðið; Donald, Samir, Svavar, Ísak og Serge. Hjá Stjörnunni var nýr leikmaður mættur, breskur kappi að nafni Mansar Mbye. Byrjunarlið gestanna; Kjartan, Dimitar, Calvin, Sævar og Fannar. 

Leikurinn fór rólega af stað, vægast sagt. Eftir 5 mínútur var staðan 6-6 og menn greinilega ekki búnir að stilla miðið. Það vantaði ekki að menn reyndu, en boltinn vildi lítið nálgast netið. Samir setti þá þrist og það virtist eitthvað vekja Stjörnumenn því þeir skoruðu næstu 11 stig í röð og breyttu stöðunni í 9-17. Stólarnir klóruðu aðeins í bakkann fyrir 2. leikhluta og staðan fyrir hann 14-17.  

Tindastóll skoraði fyrstu 4 stigin í öðrum leikhluta og var leikurinn í jafnræði lengst af leikhlutanum. Perre vaknaði til lífsins hjá Tindastóli og skoraði 7 stig í röð, en á meðan svaraði Dimitar með tveimur þristum fyrir Stjörnuna. Stjarnan seig svo framúr rétt fyrir hlé og leiddi í hálfleik 36-41. Leikurinn frekar bragðdaufur og bæði lið virtust ekki búin að hrista jólasteikina af sér. Perre og Donald hjá Tindastóli voru komnir með 10 stig í hálfleik, en hjá Stjörnunni var Dimitar með 14 og Mbye 8.   

Stjarnan byrjaði frábærlega síðari hálfleik með tveimur þristum frá Kjartani og Dimitar og munurinn skyndilega orðinn 11 stig. Mikið líf skyndilega hjá Stjörnunni og heimamenn virtust ekki líklegir til að svara fyrir sig. Þeir héldu þó í gestina og í stöðunni 51-64 og þrjár mínútur eftir af leikhlutanum vöknuðu loks Stólarnir. Perre tók þá annan sprett og setti 8 stig í röð og vörnin tók upp á því að loka á Stjörnumenn og síðustu þrjár mínúturnar skoraði Tindastóll 15-4 á gestina. Heimamenn allt í einu komnir inn í leikinn eftir að hafa leikið afleitlega á stórum köflum hingað til. Staðan 66-68 og stefndi í skemmtilegan loka fjórðung.  

Mbye setti niður annað af tveimur vítum á fyrstu mínútu leikhlutans, en Serge jafnaði leikinn 69-69 með þristi og stemningin var orðin Tindastólsmegin. Næstu mínútur var lítið skorað, en baráttan þeim meiri og á þessum kafla fékk Calvin hjá Stjörnunni sína fimmtu villu. Eftir sex mínútur og fjórar þar af leiðandi eftir var staðan 75-76. Serge skorar tvö stig, en Dimitar svarar og Stjarnan enn yfir einu stigi. Serge setur þá stóran þrist fyrir Tindastól og í kjölfarið klikkar Mbye á tveimur vítum fyrir Stjörnuna. Síðan er brotið á Serge í þriggja stiga skoti og Fannar fékk sína fimmtu villu.  

Serge náði aðeins að skora úr einu af þremur vítum, en munurinn orðinn þrjú stig 81-78. Þegar ein mínúta var eftir fær Dimitar tvö víti, en bæði lið voru þá komin með skotrétt. Hann setur bæði niður af miklu öryggi og munurinn aðeins eitt stig. Stólarnir fara í sókn og Ísak tekur þriggja stiga skot sem fer ofan í og stuðningsmenn Tindastóls sem varamenn ærast af gleði. Bragi tekur leikhlé fyrir Stjörnuna og þeir taka síðan boltann inn á miðju og brotið er á Dimitar sem fer á línuna og setur bæði vítin niður sem áður og staðan 84-82 og enn rúmar 20 sekúndur eftir.

Stjarnan gleymdi sér aðeins eftir vítin, Stólarnir taka boltann inn og Samir nær að fara upp hálfan völlinn áður en Stjörnuleikmenn ná til hans með þeim afleiðingum að dæmd er óþróttamannsleg villa á þá og Samir fær tvö víti og Tindastóll boltann. Hann setur bæði vítin niður og kemur muninum í fjögur stig 86-82. Sautján sekúndur eftir og Stólarnir taka boltann inn á Samir og er brotið strax á honum. Hann er sallarólegur á línunni og setur bæði vítin aftur ofan í og úrslitin orðin klár. Munurinn sex stig og þrátt fyrir eina sókn af hálfu Stjörnumanna náðu þeir ekki að minnka muninn og sætur sigur fyrir heimamenn í höfn.  

Bestir í jöfnu Tindastólsliði voru þeir Philip Perre og Serge Poppe. Serge var sérstaklega sterkur á endasprettinum og Philip hélt Stólunum inn í leiknum um miðbik hans. Eftir slakan fyrri hálfleik var liðið í miklu betri gír í síðari hálfleik og voru allir að skila sínu. Það sést kannski best á stigaskorinu en sex leikmenn skoruðu 10 stig eða meira fyrir heimamenn og þó að Helgi skoraði aðeins tvö stig og Halldór ekkert þá sýndu þeir mikla baráttu og stóðu sannarlega fyrir sínu. Hjá gestunum var Dimitar yfirburðamaður í sóknarleiknum og var með 30 stig og snérist sóknarleikurinn mikið í kringum hann. Hinir erlendu leikmennirnir voru ekki sérstaklega sterkir sóknarlega en voru hinsvegar sterkir í teignum og tóku saman 15 fráköst. Fannar átti einnig mjög góðan leik, 15 fráköst og 12 stig. 

Stigaskor Tindastóls: Philip 18. Serge 18, Donald 15, Samir 14, Ísak 11, Svavar 10 og Helgi Rafn 2. 

Stigaskor Stjörnunar: Dimitar 30, Mbye 12, Fannar 12, Kjartan 9, Calvin 8, Sævar 6 og Guðjón 5. 

Dómarar kvöldsins þeir Sigmundur og Erlingur og komust vel frá leiknum þó hann væri harður á köflum og menn nokkuð æstir við og við.  

Eftir leikinn eru þessi bæði lið með 8 stig í deildinni, en Hamar kom sér í fjögur stig með því að vinna ÍR á heimavelli í kvöld.  

Tölfræði leiksins 

www.tindastoll.is 

Texti: Jóhann Sigmarsson
Myndir: www.tindastoll.is – fleiri myndir frá leiknum á heimasíðu Stólanna.

{mosimage}

 

Fréttir
- Auglýsing -