spot_img
HomeFréttirHreggviður: Höldum áfram að bæta í góðan grunn

Hreggviður: Höldum áfram að bæta í góðan grunn

14:24
{mosimage}

 

(Hreggviður ásamt Matthíasi Imsland frá Iceland Express)

 

Landsliðsmaðurinn Hreggviður Magnússon var einn leikmanna í úrvalsliði umferða 9-15 í Iceland Express deild karla í dag. Hreggviður hefur verið potturinn og pannan í leik ÍR í vetur og gerði samtals 118 stig í umferðum 9-15 fyrir ÍR. Hann sagði í samtali við Karfan.is að margt jákvætt hefði gerst í herbúðum ÍR undanfarna daga.

 

,,Það er að sjálfsögðu alltaf gaman að fá viðurkenningu þegar maður hefur lagt mikla vinnu og mikinn tíma í það sem maður er að gera,” sagði Hreggviður sem gerir 19,7 stig að meðaltali í leik fyrir ÍR.

 

,,Það er margt jákvætt búið að gerast undanfarna daga hjá okkur þrátt fyrir að við höfum ekki náð að snúa svona tveimur eða þremur leikjum í sigra sem við ætluðum okkur en við erum samt búnir að leggja ágætis grunn og það vantar ekki mikið upp á að leikur okkar verði mjög öflugur,” sagði Hreggviður en ÍR er sem stendur í 7. sæti Iceland Express deildarinnar með 12 stig og taka á móti toppliði Keflavíkur í Seljaskóla á fimmtudag kl. 19:15.

 

,,Nú er ekkert annað en að halda áfram að byggja ofan á þann grunn sem við erum komnir með og æfa mikið og sterklega og ég tel að okkar síðustu deildarleikir verði okkar sterkustu,” sagði Hreggviður og bætti við að með tilkomu Nate Brown hafi ÍR horft fram á bjartari tíma en í upphafi leiktíðar.

,,Við þekkjum Nate og það tók hann stuttan tíma að koma inn í liðið. Hann lyfti okkur upp á ákveðið plan og virkar sem lím á liðið. Um jólin kom svo Tahirou Sani til okkar og við höfum hægt og bítandi verið að finna að hann er atkvæðamikill leikmaður en hann er ekki eini atkvæðamikli leikmaðurinn okkar þannig að við erum búnir að vera að finna okkar jafnvægi. Eftir þessar bylgjur í upphafi leiktíðar erum við komnir með góðan grunn og höldum áfram að bæta í hann,” sagði Hreggviður sem í umferðum 9-15 skoraði mest 31 stig í leik þegar ÍR mætti Stjörnunni.  

Hreggviður er í 14. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar með 19,7 stig að meðaltali í leik. Þeir Brenton Birmingham og Páll Axel Vilbergsson eru einu íslensku leikmennirnir sem eru ofar í töflunni en Hreggviður. Þá er Hreggviður í 7. sæti yfir frákastahæstu leikmenn deildarinnar með 7,2 fráköst að meðaltali í leik.  

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -