17:59
{mosimage}
(Hlynur Elías Bæringsson)
Miðherjinn Hlynur Elías Bæringsson var í dag útnefndur besti leikmaður umferða 9-15 í Iceland Express deild karla. Hlynur hefur leikið af miklum krafti fyrir Snæfellinga undanfarið og sagði það dagskipunina frá Kotila þjálfara að fara að sækja meira að körfunni. Hlynur gerir að jafnaði 15,1 stig fyrir Snæfell í leik og þá er hann næstfrákastahæsti leikmaður deildarinnar að meðaltali með 12,3 fráköst að jafnaði í leik.
Ferðin suður til Reykjavíkur úr Stykkishólmi kostaði hann um 13.000 kr. svo óhætt er að segja að það sé dýrt að vera góður. ,,Það er já dýrt að vera alltaf á þessu flakki,” sagði Hlynur og játti því að sér hefði gengið vel að undanförnu.
,,Ég er bara nokkuð kátur með þetta og var beðinn um að horfa meira á körfuna af þjálfaranum og skjóta meira. Ég reyni bara að halda uppteknum hætti þar sem þetta gengur ágætlega.”
Snæfellingar eru hvað þekktastir fyrir að leika góða vörn og sagði Hlynur að liðinu hentaði ágætlega að leika svæðisvörn og pressa á hálfum velli. ,,Við erum með hávaxna leikmenn með langar hendur sem geta stolið boltunum en aðalatriðið er að leika agressíva maður á mann vörn og það er vörnin sem hefur verið ástæðan fyrir því að við höfum getað eitthvað síðustu ár,” sagði Hlynur sem var sérstaklega ánægður með varnarleik Snæfellinga í undanúrslitum Lýsingarbikarsins gegn Njarðvík. Þar héldu Hólmarar heimamönnum í Ljónagryfjunni í heljargreipum og áttu Njarðvíkingar oft í mesta basli með að skora.
,,Stefnan úr þessu er klárlega að ná heimavallarréttinum í úrslitakeppninni í fyrstu umferð. Það er lítið sem má út af bregða og við gætum mætt Njarðvík, Grindavík eða Skallagrím í fyrstu umferð og þá er mikilvægt að hafa heimavöllinn, við getum ekki treyst endalaust á það að vinna þessa leiki á Suðurnesjum,” sagði Hlynur sem þann 24. febrúar mun í annað sinn leika til bikarúrslita.
,,Seinast gerðum við ekki frægðarför í Höllina og getumunurinn á liðunum var allt of mikill. Þeir Edmund Saunders og Damon Johnson voru bara að hlægja að okkur, vonandi verður meira fjör núna,” sagði Hlynur en Snæfell mætti Keflavík í bikarúrslitum árið 2003 og steinlá 95-71 í Laugardalshöll. Flestir myndu nú telja að Fjölnir færi sem minna liðið inn í úrslitaleikinn þetta árið en Hlynur sér ástæðu til þess að reka varnagla.
,,Við erum búnir að tapa á heimavelli gegn Fjölni í vetur og það var vægast sagt hroðalegur leikur, alveg skelfilegur körfuboltaleikur og við getum ekki leyft okkur að fara að vanmeta þá en ég tel okkur vera með betra lið. Það væri bara lygi ef ég myndi halda öðru fram. Við munum taka á Fjölni af fullum krafti og það þýðir lítið fyrir okkur að mæta kokhraustir í þennan leik, við verðum vel undirbúnir,” sagði Hlynur og býst við því að fáir verði á kreiki í Stykkishólmi þann 24. febrúar.
,,Það er ansi hætt við því að það verði lítið um að vera í Stykkishólmi og margir sem mæti í Höllina. Það verður örugglega mjög mikil stemmning og bæjarbúum langar jafn mikið í bikarinn og okkur. Við höfum verið með gott lið en aldrei nógu góðir til að vinna þetta svo löngunin er mikil. Það er kominn tími hjá okkur á að vinna bikarinn,” sagði Hlynur sem hefði viljað fá ferðafélaga í dag.
,,Víst KKÍ er að bjóða fjölmiðlum og fleirum hefði verið flott að vera með aukaverðlaun fyrir annan Snæfelling, veita t.d. viðurkenningu fyrir Snæfelling vikunnar, þá hefði ég fengið ferðafélaga í dag,” sagði Hlynur kátur í bragði.
Eins og fyrr greinir hefur Hlynur farið á kostum að undanförnu og er að jafnaði með 23,5 í framlagseinkunn fyrir Snæfell. Hann hefur bætt sig í framlagi í hverjum einasta mánuði á þessari leiktíð og ef áfram heldur sem horfir er ekki ósennilegt að nafn hans verði á allra vörum þegar kemur að því að velja leikmann ársins.



