10:50
{mosimage}
(Wally Szczerbiak gerði sig sekan um stór mistök)
Alls voru spilaðir 11 leikir í nótt í NBA deildinni og gerðist margt áhugvert í sumum leikjanna. Persónuleg met voru slegin og menn eflaust ánægðir með það. En það var ekki bara dans á rósum fyrir suma.
Það voru Detroit Pistons sem sigruðu í sjónvarpsviðureign næturinnar þegar þeir fengu Portland Trailblazers í heimsókn 91-82.
Chauncey Billups var stigahæstur og skoraði 17 stig í fyrsta leikhluta fyrir Detroit og þar við sat. Nánast restina af leiknum sat hann á tréverkinu og horfði á minni spámenn spreyta sig á dansgólfinu í Detroit.
Hjá Portland var það LaMarcus Aldridge sem var stigahæstur með 22 stig og 6 fráköst.
Það var fámannað lið L.A. Clippers sem mætti til leiks í Toranto til að leika við Raptors en þrátt fyrir það uppskáru þeir laun erfiðis og sigruðu 102-98.
Corey Maggette var stigahæstur Clippersmanna og skoraði 35 stig og komu 5 af þeim úr þriggja stiga skotum úr 5 tilraunum.
Hjá Toranto var Chris Bosh með 29 stig og 12 fráköst.
Jason Kidd náði sinni 99 þrefaldri tvennu þegar hann skoraði 19 stig, tók 11 fráköst og gaf 13 stoðsendingar þegar New Jersey Nets unnu Charlotte Bobcats örugglega 104-90.
Hefð virðist vera komin á hjá Kidd þegar hann mætir Bobcats en hann hefur verið með þrefalda tvennu í öllum leikjum gegn Bobcats á þessu tímabili. Kidd er í þriðja sæti yfir þá leikmenn sem flestum þreföldum tvennum hafa náð en á undan honum er á listanum Oscar Robertson (181) og Ervin “Magic” Johnson (138).
Hjá Bobcats var Gerald Wallace með flest stig eða 21 talsins.
Svakalega byrjun Orlando Magic dugði ekki til þegar liðið spilaði á móti L.A. Lakers í nótt. Orlando skoraði 44 stig í fyrsta leikhluta en með enn einum stórleik Kobe Bryant sigruðu Lakers 117-113.
Svo virðist vera að Kobe og Pau Gasol séu að ná ágætlega saman en Kobe skoraði 36 stig og Pau 30 stig. Kobe var einnig með 10 fráköst og 6 stoðsendingar.
Dwight Howard var stigahæstur Magic manna með 19 stig og 11 fráköst.
San Antonio Spurs mega teljast heppnir að hafa sigrað leikinn gegn New York Knics en framlengja þurfti til að fá úrslit í Madison Squere Garden í nótt. Á sama tíma má kannski segja að New York hafi verið klaufar að vinna ekki leikinn í venjulegum leiktíma. Michael Finley jafnaði leikinn þegar 0,4 sek. voru eftir á klukkunni eftir að Spurs hlupu kerfi sem gjörsamlega kom Knicks í opna skjöldu. Lokatölur 99-93.
Tim Duncan var sitahæstur Spurs með 21 stig og 14 fráköst en hjá New York skoraði Jamal Crawford 24 stig.
Cleveland stöðvaði þriggjaleikja sigurgöngu Atlanta Hawks þegar þeir unnu góðan útisigur 100-95.
Lebron James var að vanda allt í öllu hjá Cleveland en hann skoraði 26 stig, tók 11 fráköst, og gaf 7 stoðsendingar.
Joe Johnson var stigahæstur Atlanta með 23 stig og 8 stoðsendingar.
Kevin Garnett var ekki með Boston þegar liðið mætti hans gömlu félögum í Minnesota Timberwolves í nótt. Boston má teljast heppnir að vinna leikinn en Leon Powe skoraði sigurkörfu Celticsmanna þegar hann setti niður sniðskot um leið og leiktíminn rann út og tryggði þeim tveggja stiga sigur 88-86.
Timberwolves voru með boltann þegar 28 sekúndur voru eftir af leiknum og reyndu þriggjastiga skot sem geigaði. Craig Smith náði sóknarfrákasti og reyndi að gefa hann aftur út. Rey Allen komst inn í sendinguna og brunaði upp völlinn. Eftir þæfing undir körfu Timberwolves endaði boltinn í höndunum á Powe sem lagði boltan ofaní um leið og tíminn rann út.
Paul Pierce var stigahæstur Boston með 18 stig og Al Jefferson var einnig með 18 stig en þó fyrir Timberwolves.
Dallas Mavericks áttu ekki í teljandi vandræðum með Memphis Grizzlies og unnu 92-81.
Dirk Nowitzki var stigahæstur Dallas með 21 stig en hjá Memphis var Rudy Gay með 18 stig og 12 fráköst.
Phoenix Suns unnu sigur á Seattle Supersonics með smá aðstoð frá Wally Szczerbiak, 103-99.
Suns leiddi 100-99 og Seattle átti innkast undir körfu Suns. Szczerbiak fann engan til að gefa á og bað um leikhlé. Seattle átti ekkert leikhlé og uppskáru tæknivillu og Phoenix fór á línuna þegar 15 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Nash skoraði úr vítinu og Seattle braut svo á honum um leið og boltinn kom aftur inn á og Nash fór aftur á línuna og klikkaði ekki en Suns nýtti öll 32 vítin sem þeir fengu í leiknum.
Amare Stoudemire var stighæstur Suns með 33 stig og 12 fráköst en hjá Seattle var Chris Wilcox með 22 stig og 15 fráköst.
Sacramento Kings unnu öruggan sigur á Utha Jazz eftir jafnan leik framan af, 117-104.
Kevin Martin var með 27 stig og 5 fráköst fyrir Sacramento en Carlos Boozer gerði 23 stig og tók 12 fráköst fyrir Utha.
Að lokum unnu Denver 11 stiga sigur á Washington 111-100.
Carmelon Anthony setti persónulegt stigamet en hann skorði 49 stig. Hann má þakka samherja sínum Allen Iverson að vissu leiti fyrir það en Iverson var að dæla á hann sendingum og var með 11 stoðsendingar.
Hjá Washington var Antawn Jamison með 21 stig og 8 fráköst.
Emil Örn Sigurðarson – [email protected]



