09:46
{mosimage}
(Jackson var illviðráðanlegur í nótt)
Sjö leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt þar sem Stephen Jackson fór á kostum í liði Golden State Warriors og setti 41 stig gegn Washington Wizards. Warriors unnu leikinn 120-117 en þetta var áttundi tapleikur Wizards í röð sem sakna sárlega Gilbert Arneas og Caron Butlers. Stigahæstur í liði Wizards í nótt var Roger Mason með 32 stig.
Meistarar San Antonio Spurs höfðu nauman útisigur á Toronto Raptors 88-93 þar sem Manu Ginobili skoraði 34 stig og sló persónulegt met er hann reif niður 15 fráköst fyrir Spurs. Hjá Raptors var Spánverjinn Jose Calderon atkvæðamestur með 27 stig og 6 stoðsendingar.
Philadelphia 76ers vann sinn fjórða leik í röð þegar Dirk Nowitzki og félagar í Dallas komu í heimsókn. Lokatölur leiksins voru 84-76 76ers í vil þar sem Andre Miller gerði 21 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar í liði 76ers. Hjá Dallas var Josh Howard með 17 stig og 6 fráköst.
Kobe Bryant og Pau Gasol gerðu 57 af 106 stigum Lakers í nótt þegar Lakers lögðu Charlotte Bobcats 97-106 í Charlotte Bobcats Arena. Bryant setti niður 31 stig og Gasol bætti við 26 en Gasol setti niður 9 af 11 teigskotum sínum og 8 af 12 vítaskotum. Hjá Bobcats var Raymond Felton með 29 stig og 8 stoðsendingar.
Eftir nokkuð basl við að komast til Orlando tókst Cleveland Cavaliers að innbyrða sigur gegn Magic 111-118. Flugvél Cavaliers bilaði lítillega og voru liðsmenn Cleveland ekki komnir til Orlando fyrr en nokkrum klukkustundum fyrir leik. Það hafði þó ekki afdrifarík áhrif þar sem Cleveland landaði sigrinum og þar fór fremstur í flokki Larry Hughes með 40 stig en LeBron James kom honum næstur með 29 stig, 10 stoðsendingar og 7 fráköst. Hjá Magic var Tyrkinn Hedo Turkoglu atkvæðamestur með 25 stig.
LA Clippers höfðu útisigur í nótt gegn Milwaukee Bucks 89-96 og var þetta þriðji tapleikur Bucks í röð. Al Thornton var stigahæstur hjá Clippers með 25 stig en í liði Bucks var Mo Williams með 31 stig.
Houston Rockets unnu sinn sjöunda leik í röð þegar þeir lögðu Portland 95-83 í Toyota Center í Houston. Kínverjinn Yao Ming gerði 25 stig og tók 7 fráköst í liði Rockets en LaMarcus Aldridge gerði 22 stig fyrir Portland.



