spot_img
HomeFréttirAustrið vann og LeBron James valinn bestur

Austrið vann og LeBron James valinn bestur

09:33
{mosimage}

(Það vantaði ekki tilþrifin hjá King James í nótt) 

Hinn árlegi stjörnuleikur NBA deildarinnar fór fram í New Orleans í nótt þar sem glæsileg tilþrif og jazztónlist réðu ríkjum. Félagarnir Svali Björgvinsson og Benedikt Guðmundsson lýstu leiknum í beinni útsendingu á SÝN og á NBA blogginu á Vísir.is sköpuðust líflegar umræður í kringum leikinn. Skemmst er frá því að segja að Austurdeildin fór með sigur af hólmi 134-128 og var LeBron James, leikmaður Cleveland Cavaliers, valinn maður leiksins en hann gerði 27 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 8 fráköst.  

Með sigrinum í nótt svaraði Austurdeildin fyrir slæmt tap í stjörnuleiknum í fyrra sem lauk með 153-132 sigri Vesturstrandarinnar. Strax í upphafi leiks komu mögnuð tilþrif og opnaði Dwyane Wade leikinn með troðslu. Ofurmennið Dwight Howard frá Orlando Magic var einnig frískur í upphafi og byrjaði á ofurtroðslu og blokkaði svo skot frá Yao Ming upp í stúku en Howard hafði sigur í troðslukeppninni á laugardagskvöld.

Í upphafi leiks þegar hvað mestu lætin voru í Howard höfðu þeir Svali og Benedikt eftirfarandi á orði í lýsingu sinni: ,,Sérðu bara handleggina á kvikindinu, þetta er bara fáránlegt,” sagði Benedikt og Svali svaraði að bragði: ,,Þetta minnir á stælta lærvöðva,” er þeir félagar ræddu um kraftinn í Dwight Howard og upphandleggi kappans. 

Hver gyllta setningin á fætur annarri draup af vörum Svala og Benedikts í nótt og verður gaman að fylgjast með þeim áfram í körfuboltalýsingum enda Svali annálaður körfuboltaþulur en ætli Benedikt verði ekki önnum kafinn við að gera eitthvað allt annað þegar Svali verður að lýsa úrslitakeppninni í Iceland Express deildinni sem hefst bráðlega.  

Vestrið tók forystu snemma leiks og leiddi allan leikinn og hafði eins og áður greinir 134-128 sigur á Vestrinu. Rasheed Wallace sem tók sæti Kevins Garnett í stjörnuliði austursins sýndi hversu mikið ólíkindatól hann er með vinstri handar þriggja stiga körfum en kappin ku víst vera rétthentur.  

Næsti stjörnuleikur NBA deildarinnar fer fram í Phoenix en síðast fór stjörnuleikurinn þar fram árið 1995 þar sem Vestrið hafði betur 139-112. Austurdeildin setti met í leiknum í nótt er þeir skutu 36 þriggja stiga skotum en gamla metið var 30 skot sem sett var af Vesturliðinu 2002. 

Hægt er að sjá nánar um stjörnuleikinn 2008 með því að smella hér.

[email protected]

Mynd: AP

Fréttir
- Auglýsing -