22:54
{mosimage}
(Grindvíkingum tókst ekki að stöðva Victoriu Crawford)
Haukar tóku á móti bikarmeisturum Grindavíkur í kvöld að Ásvöllum. Þessi lið mættust í úrslitum Lýsingarbikarsins fyrir stutt en þá höfðu Grindvíkingar sigur í sveiflukenndum leik. Í kvöld snérist dæmið við og Haukar unnu 14 stiga sigur 87-73. Leikurinn hafði engin áhrif á lokastöðu Hauka í Iceland Express-deildinni en Grindvíkingar gerðu sér lífið erfitt fyrir að reyna ná heimavallarréttinum í úrslitakeppninni. Nú þurfa þær að treysta á 17 sigur í lokaleiknum gegn KR ef þær ætla sér heimavallarréttinn. Victoria Crawford lék sinn fyrsta leik fyrir Hauka í kvöld og fór á kostum. Skoraði hún 42 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Stigahæst hjá Grindavík var Tiffany Roberson með 21 stig og 10 fráköst.
Victoria Crawford opnaði leikinn með tveggja stiga körfu og skorað hún sex af fyrstu átta stigum Hauka. Á sama tíma skoraði Joanna Skiba tvær körfur fyrir Grindavík og staðan 8-4 fyrir Hauka. Haukastelpur skoruðu næstu sex stig leiksins og juku muninn í átta stig. Grindavík svarar með tveim þristum frá Jovönu Stefánsdóttur og Ólöfu Helgu Pálsdóttur. Liðin skiptust á körfum út leikhlutann og staðan 22-18 eftir 1. leikhluta.
Grindavík skoraði fyrstu körfu 2. leikhluta en þá komu sex stig í röð frá Haukum sem Victoria Crawford skoraði og staðan 28-20 fyrir Haukum. Haukastelpur auka muninn jafnt og þétt og Grindvíkingar áttu fá svör við góðum leik Hauka. Staðan í hálfleik var 44-30 fyrir Haukum. Victoria Crawford var óstöðvandi í fyrri hálfleik og skoraði 23 stig fyrir Hauka.
{mosimage}
(Telma Fjalarsdóttir og Tiffany Roberson tóku á því á blokkinni)
Hálfleiksræða Igors Beljanski kveikti í Grindvíkingum en þær hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti. Þær byrjuðu að saxa muninn jafnt og þétt og Haukastelpur sem höfðu spilað ágætlega fram að því misstu dampinn. Petrúnella Skúladóttir byrjaði að negla niður þristum ásamt því að Tiffany Roberson byrjaði að setja skotin. Staðan eftir leikhlutann var 63-60 og Grindvíkingar í miklum ham.
Eins og Grindavík spilaði vel í 3. leikhluta þá héldu þær ekki dampi í þeim fjórða en Haukastelpur rúlluðu yfir þær. Þær skoruðu fyrstu sex stigin og auka muninn í níu stig 69-60. Grindvíkingar komast loks á blað þegar Tiffany Roberson setur niður tvö stig. Þá kom 7-0 kafli hjá Haukum og munurinn orðin 14 stig 76-72. Eitthvað virtust Grindvíkingar vakna af værum blundi og skoruðu átta stig gegn tveimur og minnkuðu muninn í átta stig 78-70. Nær komust þær ekki að sinni og Haukar kláruðu leikinn með 9-3 kafla og 14 stiga sigur í hús 87-73.
{mosimage}
(Unnur Tara Jónsdóttir var með fjögur stig fyrir Hauka)
Frumraun Victoriu Crawford með Haukum var góð en hún skoraði 42 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Hún hafði góð áhrif á lið Hauka á báðum endum vallarins en vildi hanga aðeins of mikið á boltanum þegar leið á leikinn. Kristrún Sigurjónsdóttir var einnig sterk með 13 stig.
Hjá Grindavík skoraði Tiffany Roberson 21 stig og komu 17 þeirra í seinni hálfleik. Joanna Skiba setti 18 stig og gaf 9 stoðsendingar. Petrúnella Skúladóttir spilaði vel í seinni hálfleik og hélt Grindavík inni í leiknum með þriggja-stiga skotum sínum um tíma í seinni hálfleik. Hún endaði með 17 stig þar af 15 úr þriggja stiga skotum.
Tölfræði
Texti: [email protected]
Myndir: [email protected]
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}



