09:23
{mosimage}
(Helena gerði 6 stig gegn Air Force skólanum í nótt)
Helena Sverrisdóttir og félagar í bandaríska háskólakörfuboltaliðinu TCU eru nú í Las Vegas þar sem fram fer úrslitakeppni um að komast inn í 64 liða úrslit háskólaboltans sem jafnan eru nefnd ,,March Madness.” TCU lék sinn fyrsta leik í nótt gegn Air Force skólanum og höfðu Helena og félagar góðan 13 stiga sigur, 60-47. Öllum að óvörum er lið Utah dottið út úr keppninni en liðið tapaði í fyrsta leik gegn Colorado State skólanum. TCU hafnaði í 2. sæti Mountain West deildarinnar þar sem Utah skólinn lauk keppni í 1. sæti ósigraður. Þess má einnig geta að lið Colorado State lauk keppni í neðsta sæti deildarinnar aðeins með fjóra sigra svo úrslitin eru mikil vonbrigði fyrir Utah skólann.
Helena var í byrjunarliði TCU og lék í 24 mínútur og gerði 6 stig í leiknum. Helena tók einnig 4 fráköst en tapaði tveimur boltum. Hún setti niður 3 af 10 skotum sínum af vellinum og brenndi af tveimur vítaskotum. Stigahæst hjá TCU var Adrianne Ross með 16 stig.
TCU er því komið í undanúrslit riðilsins og mætir liðið San Diego State skólanum í næsta leik aðfararnótt laugardags. San Diego State skólinn lauk keppni í 5. sæti Mountain West riðilsins en liðið vann Wyoming skólann í fyrstu umferð í nótt en Wyoming hafnaði í 3. sæti deildarkeppninnar svo óhætt er að segja að TCU hafi verið eina toppliðið í riðlinum sem ekki olli vonbrigðum í upphafi mótsins í Las Vegas.
Takist TCU að hafa sigur á San Diego State skólanum aðfararnótt laugardags munu Helena og félagar leika til úrslita gegn annaðhvort New Mexico eða Colorado State skólunum.
Tölfræðin úr leik TCU og Air Force



