spot_img
HomeFréttirSigurður Elvar: Geirmundur gæti hjálpað Val upp

Sigurður Elvar: Geirmundur gæti hjálpað Val upp

16:30

{mosimage}

Við höldum áfram að birta svör hákarlanna um úrslitakeppni 1. deildar karla. Þá er það blaðamaðurinn knái frá Akranesi, Sigurður Elvar Þórólfsson.

 

Hvernig lýst þér á úrslitakeppnina í 1. deild karla?
Þetta er svona RÚV spurning,  hvernig leggst leikurinn í þig? Úrslitakeppnin er betri í dag en áður eftir að Gunnar Freyr Steinsson dómari lagði fram þessa tillögu að efsta liðið færi beint upp í úrvalsdeildina. Breiðablik var án efa með besta liðið en ég held að baráttan um hitt sætið verði hörð?

Hvaða lið fer upp?
Ég ætla ekki að leggja mikið undir á Lengjunni en ég tippa á FSu. Þeir eru með ungt lið en það er eitthvað í loftinu þarna á Selfossi sem segir mér að FSu fari alla leið. Kannski eru það strípurnar, sportbílarnir og ljósashowið? Eða kannski bara Vésteinn Sveinsson fyrrum leikmaður ÍA.

Mun Pétur Ingvarsson leika sama leik og hann gerði með Hamar á sínum tíma?
Ef það er einhver sem kann þetta þá er það Pétur. Hann mun ná því besta út úr þessu liði sem er vel mannað. George Byrd passar vel í búninginn sem Ingram skildi eftir og leikmenn á borð við Steinar Kaldal. Gunnlaug Elsuson og Friðrik Hreinsson eru með mikla reynslu úr úrvalsdeildinni. Ég vil nota þetta tækifæri og minna Gunnlaug á úrslitaleik okkar tveggja í sveitakeppni GSÍ haustið 2005 á Jaðarsvelli. Þar sannaðist að golf snýst að mestu um heppni. Ármann /Þróttur gæti alveg farið alla leið. Byrd á eftir að smellpassa í búninginn og rífa niður fráköst.

Er tími FSu kominn?
Varstu ekki búinn að spyrja að þessu? Þeir eru með mjög efnilega leikmenn og hafa fengið til sín erlenda leikmenn sem styrkja liðið. Það sem mun skipta mestu máli fyrir Brynjar Sigurðsson þjálfara og lærisveina hans er að ná réttu spennustigi á þessu „hraðmóti”. Það getur allt gerst, hver man ekki eftir Grindavík (1.) ? ÍA (8.) fyrir nákvæmlega áratug.? Vésteinn Sveinsson og Árni Ragnarsson verða að leika vel ætli liðið sér upp. Brynjar þarf líka að vera þokkalega vel klæddur á hliðarlínunni og ljósar strípur gætu gert gæfumuninn.

Verða Valsarar að bíða í 1. deild í eitt ár enn?
Já, þeir þurf að bíða. Valur er að byggja upp lið og þeir þurfa lengri tíma að mínu mati. Það eru „ungstirni” á borð við Jason Harden sem gætu reyndar gert ýmislegt í svona spennuleikjum þar sem að reynslan skiptir miklu máli. En ég tel að Valur þurfi lengri tíma til að undirbúa liðið fyrir úrvalsdeildina. Þeir gætu notað gamalt leynivopn sem var mikið notað á Sauðárkróki þegar Tindastóll var upp á sitt besta. Það sem þeir gerðu var að setja „skást of” blöndu af lögum Geirmundar Valtýssonar í botn í græjunum og þetta var spilað í klukktíma fyrir hvern leik í „gamla Síkinu”. Valsmenn gætu nálgast þessa eitruðu lagablöndu hjá fréttastjóra karfan.is,  ([email protected]), ef hann er ekki að nota diskinn. Mín reynsla af þessari tónlist er að skagfirska sveiflan lamar andstæðinginn….

Komast Haukar upp á erlends leikmanns?
Henning Henningsson þjálfari liðsins er næstum  því útlendingur eftir námsdvöl í Danmörku á árum áður, svo er hann líka örvhentur en þann galla bætir hann upp með því að halda með Tottenham. Þess má geta að Henning var að dekka Joe Wrigt í frægum leik vorið 1993 þegar Wright skoraði ÖLL stig Breiðabliks í fyrri hálfleik gegn Skallagrím, 41 stig að mig minnir. Henning hefur átt erfitt með svefn frá þeim tíma.  Haukar eru að byggja upp og hafa tekið þá stefnu að láta sína menn um að axla ábyrgð. Ég held að þeir séu að gera rétt með þeirri ákvörðun. Haukar þurfa 1-2 ár til viðbótar og ef það gengur upp þá byrjar Henning bara aftur að spila og hann fær kannski Alexander Ermolinskij í Hauka með sér og Ívar Ásgrímsson á ennþá körfuboltaskó, pungbindi og háa hvíta sokka.

[email protected] 

Mynd: Morgunblaðið

Fréttir
- Auglýsing -