20:25
{mosimage}
Við höldum áfram að birta svör hákarlanna um úrslitakeppni 1. deildar karla. Þjálfari toppliðsins, Einar Árni Jóhannsson, hefur spilað við öll þessi lið og ætti því að vita hvað þau geta.
Hvernig lýst þér á úrslitakeppnina í 1. deild karla?
Þetta verður spennandi úrslitakeppni. Mér sýnist þetta verða þannig að FSu og Haukar mætist annars vegar og Valur og Ármann hins vegar. FSu og Haukar mætast í síðustu umferðinni og þar geta Haukar sýnt hvað er í vændum, en sigur hjá þeim myndi reyndar setja þá gegn Val og Ármann þá gegn FSu. Ég þykist vita að FSu gráti það ekkert að mæta ekki Ármann í fyrstu umferð enda klárlega mesta reynslan í þessu Ármannsliði og svo eru þeir að fá George Byrd sem hefur svosem gert vel hér í gegnum tíðina.
Hvaða lið fer upp?
FSu er með þetta í sínum höndum. Þeir hafa heimavallarréttinn út úrslitakeppnina og manni heyrist flestir hallast að því að þeir fari upp. Það hefur mikið verið lagt í pakkann hjá þeim og þeir gera kröfu á sjálfan sig að fara upp. Ég held að við fáum að sjá svakalegt úrslitaeinvígi sama hvaða lið verða þar en ég er reyndar nokkuð viss um að FSu verður annað þeirra. Ég skýt á það að FSu klári þetta dæmi.
Hvaða leikmönnum kemur til með að mæða mest á?
Hjá FSu er Sævar Sigurmundsson algjör lykilmaður. Hann færir þessu liði mikla reynslu og er alveg fantaliðsmaður. Matt Hammer, Árni Ragnarsson, Vésteinn Sveinsson og Ante Kapov verða einnig í stórum hlutverkum og þá sérstaklega Hammer sem hefur unnið ófáa leiki upp á eigin spýtur fyrir FSu í vetur. Hjá Val eru það Jason, Rob og Craig sem verða lykilmenn og þeir þurfa allir að spila virkilega vel ef Valur á að komast í gegnum tvö sterk lið. Vissulega þurfa strákar eins og Ragnar Gylfason, Alexander Dungal, Hörður Hreiðarsson og Steingrímur Ingólfsson allir að leggja sitt af mörkum. Ármann verður með Byrd í risastóru hlutverki eins og hans er von og vísa. Hann þarf að fylla skarð Maurice Ingram sem mér fannst spila frábærlega fyrir Ármann. Ingram var virkilega að gera menn betri í kringum sig auk þess sem hann frákastaði mjög vel. Byrd er hugsanlega meiri skorari en Ingram og það gæti styrkt Ármann ef eitthvað er. Steinar Kaldal er einnig algjör lykilmaður í þessu liði og þá þurfa skotmenn eins og Ásgeir, Gulli, Óli Ægis, Gunni Stef og síðast en ekki síst Rikki Hreins að eiga góða leiki í þessari úrslitakeppni. Risa reynsla í þessu liði og spurning hvort að hún slái öllu öðru við. Haukarnir eru klárlega það lið sem menn búast minnst við sem sigurvegurum í þessari keppni en þeir hafa gert virkilega vel á köflum í vetur og þarna eru baráttuhundar. Marel, Siggi Einars, Sveinn Ómar og Lúlli eru svona þeir sem þurfa að spila mjög vel til þess að Haukar séu að fara að vinna leiki í úrslitakeppninni. Þeir eru reyndar eflaust eina liðið þarna sem er ekki með stífa pressu frá sjálfum sér á að fara upp og koma örlítið afslappaðari inn í þetta og gætu gert einhverja lukku, sérstaklega á heimavelli.
Mun Pétur Ingvarsson leika sama leik og hann gerði með Hamar á sínum tíma?
Ég sá nú Pétur og félaga leggja ÍR í Seljaskólanum um árið í svaka leik. Pétur er með svaka reynslu í sínu liði og koma Byrd gæti orðið nett vítamínsprauta fyrir þá. Svo er það bara stórt atriði fyrir Ármann að hafa fengið mann á bekkinn. Gulli skilar liðinu meira sem leikmaður og stjórnunin verður klárlega öflugri þar sem það er enginn leikur að vera spilandi þjálfari. Pétur og félagar gætu vel farið alla leið en þeir gætu líka farið 0-2 út í fyrri umferð.
Er tími FSu kominn?
Ég ætla allavega að skjóta á það að þeir klári þetta.
Verða Valsarar að bíða í 1. deild í eitt ár enn?
Ef að spáin með FSu rætist. Valsliðið er mjög gott og þetta fornfræga félag á náttúrulega að vera í efstu deild, með þessa glæsilegu aðstöðu. Þeir hafa innan sinna raða unga og efnilega stráka í bland við reynslubolta og þeir fóru nú alla leið í úrslit gegn Stjörnunni í fyrra þar sem þeir biðu lægri hlut. Ég tel þá mun sterkari þetta árið auk þess sem þeir eiga núna sinn heimavöll. En á móti er 1. deildin mun sterkari þetta árið heldur en td í fyrra.
Komast Haukar upp án erlends leikmanns?
Það yrði náttúrulega alveg magnað ef þeim tækist það. Ég tel líkurnar samt ekki miklar og lít reyndar svo á að þeir megi vera mjög sáttir með sæti í úrslitakeppninni. Þeir eru alveg smitaðir af baráttunni hans Hennings en ég reikna ekki með að það dugi þeim í ár.
Mynd: [email protected]



