spot_img
HomeFréttirÍvar Ásgrímsson: Valur er stórt félag og á hvergi heima nema í...

Ívar Ásgrímsson: Valur er stórt félag og á hvergi heima nema í úrvalsdeild

8:30

{mosimage}

Nú höldum við áfram að skoða hvað hákarlarnir hafa að segja um úrslitakeppnina í 1. deild. Við minnum á að þeir svöruðu spurningunum fyrir síðustu umfreðina í deildinni sem fór fram á föstudag. Nú er það Ívar Ásgrímsson sem hefur komið víða við, bæði sem leikmaður og þjálfari og er einn þeirra sem varð Íslandsmeistari með Haukum fyrir 20 árum.

Mikil spenna virðist ætla að vera fyrir úrslitakeppninni í 1. deild og eru nokkur lið sem eiga eftir að gera harða atlögu að þessu eina lausa sæti sem er í úrvalsdeildinni.  Þróunin á 1. deildinni er búinn að vera mjög góð og ég held að Körfuknattleikssambandið eigi að reyna að vinna vel úr þessari þróun, þ.e. að fjölgun betri liða virðist vera raunin.  Gríðarleg barátta er í úrvalsdeildinni og tvö góð lið falla niður sem ætti að gera 1. deildina enn betri á næsta ári.

Töluverð barátta hefur verið um tvö síðustu sætin, þ.e. sæti 4 og 5 í deildinni og unnu t.d.  Haukarnir mjög góðan sigur á síðustu sek. á Ísafirði.  Eins og staðan er í dag þá mætast FSu – Ármann og svo Valur – Haukar.  Ein umferð er þó eftir og því gæti þetta breyst eitthvað, þ.e.  Haukar og Ármann gætu skipt um sæti.

Af þessum fjórum liðum held ég að það verði Valur og FSu sem spili til úrslita og held að Valur taki þetta og fari upp með Breiðablik.  FSu og Valur eru með fleiri útlendinga en hin liðin og Haukarnir eru eina liðið sem ekki er með útlending og því er þeirra árangur athyglisverður og hafa þeir verið að spila vel eftir áramót og verið stígandi í þeirra leik.  Það væri frábært ef þeir kæmust upp en held þó að svo verði ekki á þessu tímabili. Þetta hefur verið lærdómsríkt ár hjá þeim og stefnan var kannski ekki sú að fara upp í ár og því ætti þetta að gefa þeim aukið  sjálfstraust fyrir næsta ár.  Lykilmenn hjá Haukum eru Sveinn, Sigurður, Lúðvík og svo auðvitað gamla brýnið hann Marel.  Ég hef einnig verið mjög hrifinn af ungum strák hjá þeim að nafni Helgi og held að hann eigi eftir að verða mjög góður.

Þó svo að ég spái Valsmönnum upp þá hafa þeir valdið nokkrum vonbrigðum í vetur og hafa kannski ekki verið að spila eins og búist var við af þeim. Þeir sýndu þó góðan leik í síðasta leik á móti Breiðablik en misstu þó unnin leik úr höndunum og spurning hvort þetta sé áhyggjuefni hjá þeim.  Hjá Valsmönnum eru það Harden, Walls og Hodgson og svo Ragnar sem lykilmenn. Valsmenn eru einnig með nokkra efnilega leikmenn sem gætu komið á óvart.

FSu er örugglega það lið sem er best samæft og gætu farið langt á því.  Þeir eru með unga stráka sem eru í mjög góðu formi og pressa sjálfsagt mikið í úrslitakeppninni.  Mitt álit er að þeir vinni Ármenninga á góðri vörn og því að þeir séu í mun betra formi.  FSu er með 8 leikmenn sem hafa verið að skora um og yfir 10 stig að meðaltali hjá þeim og er það mikill styrkur. Þeirra stigahæstur er Hammer og Kapov sem útlendinga og svo mjög góða unga leikmenn eins og Árna og Sævar.

Ármann er spurningamerki en það hefur þó verið nokkuð jákvæð þróun hjá þeim uppá síðkastið, þ.e. Pétur orðinn þjálfari og komnir með Byrd.  Þeir gætu komið á óvart og farið alla leið.  Ef þeir ná að vinna undanúrslitin getur allt gerst.  Þeirra lykilmenn eru Byrd, Steinar Kaldal, Friðrik og Ólafur. Spurningin við þetta lið er aftur á móti sá að þarna eru nokkrir mjög góðir leikmenn sem hafa hætt með sínum uppeldisliðum (t.d. KR) vegna tímaskorts og farið að æfa í neðri deild og því spurning hvað gerist ef þeir fara upp. Hef reyndar nokkrar áhyggjur af þessu og held að það best fyrir úrvalsdeildina að Valsmenn fari upp.  Þetta rökstyð ég með eftirfarandi:
a) Valsmenn eru stórt félag og á hvergi heima nema í efstu deild,
b) nýbúnir að stofna kvennadeild og því yrði öflug körfuknattleiksdeild þar í gangi,
c)þeir eru á toppnum í fótbolta og handbolta og þurfa að bæta körfunni við og svo
d) eru að mínu mati fjársterkasta liðið til að fara upp og ættu því að geta gert góða hluti.

Þar sem ég er byrjaður, vil ég líka benda á nokkra hluti í sambandi við fjölgun útlendinga í 1. deildinni sem er ekki góð þróun að mínu mati.  Mitt álit er að það eigi að hámarka útlendinga í 1. deild við einn útlending, (jafnvel engan) þ.e. að fjórir Íslendingar séu inná vellinum í einu.  Það vantar að gera meira fyrir íslenska leikmenn og við þurfum að ala þá upp í því að taka ábyrgð.  Úrvalsdeildin hefur örugglega sjaldan verið eins sterk eins og í ár og því miður eru það útlendingar sem þar ráða ríkjum og er ábyrgð Íslendinga alltaf að verða minni og minni.  Stór lið eins og KR og Keflavík með þrjá útlendinga, sem er ekki góð þróun að mínu mati.  En ekki  vinnst tími á þetta núna en vildi einungis benda á þessa hluti í lokin.

[email protected]

Mynd: www.karfan.is

 

Fréttir
- Auglýsing -