16:24
{mosimage}
(Tywain McKee leikmaður Coppin State)
Úrslitakeppni í efstu deild (NCAA division one) bandaríska karla háskólakörfuboltans byrjar í kvöld. Fyrsti leikurinn er á milli Coppin State (ernir) frá Baltimore og Mount St. Mary’s (fjallamenn) frá Maryland. Liðið sem vinnur þennan leik kemst í 64 liða úrslit og fær þau verðlaun að mæta hinu stórgóða liði North Carolina.
Coppin State á það met að vera fyrsta liðið að komast í úrslitakeppnina og hafa tapað 20 leikjum á keppnistímabilinu. Stóran hluta keppnistímabilsins lék Coppin St. illa og eftir að hafa leikið 23 leiki hafði liðið tapað 19. Þá hrökk liðið í gang og sigraði í 12 af síðustu 13 leikjum sínum og um leið sigraði liðið í úrslitakeppni Mid-Eastern riðilsins.
Mount St. Mary’s hefur átt jafnara keppnistímabil og sigrað í 18 leikjum og tapað 14. Þeir komust í úrslitakeppnina með því að sigra úrslitakeppni Northeast Conference.
Besti leikmaður Coppin St. er leikstjórnandinn Tywain McKee sem er á síðasta árinu með liðinu. Á þessu keppnistímabili hefur hann skorað að meðaltali 17 stig á leik. Í úrslitaleiknum í riðlinum þeirra þá var hann með 33 stig og flautusigurkörfu.
Bakverðirnir hjá fjallamönnunum, þeir Jeremy Goode og Chris Vann hafa leikið vel í vetur. Þeir skora saman að meðaltali um 30 stig á leik og eru góðir í stoðsendingunum. Fjallamennirnir eru með meiri breidd og ætla að leggja áherslu á að nota hana til að leggja ernina í kvöld.
Leikurinn byrjar í kvöld kl. 23:30 og er sýndur á kapalstöðinni NASN. Þessa stöð er hægt að finna á breiðbandi Símans og áskrift að henni er á góðu verði, a.m.k. m.v. það sem íslensk heimili eru að borga fyrir enska boltann og meistaradeildina. NASN mun sýna alla keppnina fram til 7. apríl.
Stóri dansinn hefst fyrir alvöru á fimmtudaginn með 16 leikjum.



