![]() |
| Damon Bailey var illviðráðanlegur fyrir Grindvíkinga í kvöld |
Njarðvíkingar tryggðu sér heimavallarrétt gegn Snæfell í kvöld með góðum sigri á nágrönnum sínum úr Grindavík. Lokastaða var 102-92 en um hörkuleik var að ræða og náðu Njarðvíkingar aldrei að hrista gestina af sér almennilega. Grindvíkingar hófu leikinn nokkuð betur og komust í 3-11. Jaamal Williams var á þessum mínútum óstöðvandi niðri í teig og skoraði að vild.
![]() |
| Adam Darboe setur niður lay up |
Það voru svo 2 þristar frá Bailey og Brenton sem minnkuðu muninn fyrir Njarðvíkinga og þeir grænu að ná sér á strik eftir slaka byrjun. Grindvíkingar héldu áfram að dæla boltanum niður í teig þar sem Njarðvíkingar áttu í mesta basli með Williams. Þetta skilaði þeim 6 stiga forystu eftir fyrsta fjórðung.
Í öðrum leikhluta byrjuðu gestirnir með skynsömum leik. Fljótlega var forysta þeirra orðin 12 stig, 22-34. Þar munaði um minna gamli refurinn Helgi Jónas Guðfinnsson fyrir gestina sem ásamt því að skora auðveldar körfur stal hann nokkrum boltum að heimaliðinu sem virtust ekki vera með einbeitninguna í lagi. Um miðbik fjórðungsins fór hinsvegar að halla undan fæti hjá gestunum. Þeir fóru að þvinga erfið þriggjastiga skot í stað þess að halda sig við það sem var að virka niðri í teig. Njarðvíkingar hertu einnig tökin í vörninni og fljótlega voru þeir búnir að vinna upp þá forystu sem gestirnir höfðu verið komnir með. Gestirnir leiddu með einu stigi þegar liðin héldu til hálfleiks, 43-44
Þriðja leikhluta hófu heimamenn með látum. Damon Bailey hóf að keyra að körfu Grindvíkinga með góðum árangri. Njarðvíkingar náðu fljótlega frumkvæðinu í leiknum og leiddu þetta með 5 til 6 stigum. En Grindvíkingar með Jaamal í fararbroddi gáfust aldrei upp og voru aldrei langt undan og því þurftu heimamenn að hafa virkilega fyrir hlutunum. 73-66 var staðan eftir þriðja fórðung eftir að Guðmundur Jónsson hafði sett niður fallegan þrist og Hörður Axel fékk auðvelt lay up í lok fjórðungsins.
![]() |
| Jóhann Árni á fleygi ferð |
Njarðvíkingar héldu áfram að þjarma að Grindvíkingum. Hörður og Brenton settu niður sitt hvor þristinn og allt í einu var staðan orðin 80-68 heimamenn í vil og stuðningsmenn Njarðvíkur héldu að nú væri Björninn unnin. Sóknarleikur gestanna var tilviljunarkenndur og það nýttu heimamenn sér vel. Þegar um 6 mínútur voru eftir fékk besti leikmaður Grindvíkinga, Jaamal Williams sína 5. villu. Þrátt fyrir það gáfust gestirnir ekki upp og náðu forskoti Njarðvíkinga niður í 6 stig þegar um mínúta var eftir. En Njarðvíkingar stóðust álagið og kláruðu dæmið eins og fyrr segir.
Hjá Njarðvík var Damon Bailey með stórleik þegar hann setti niður 25 stig og reif niður 12 fráköst. Næstur honum var Hörður Axel sem setti 21 stig og sendi 5 stoðsendingar. Hjá gestunum var það Jaamal Williams sem nánast skoraði af vild en setti 23 stig á þeim 25 mínútum sem hann spilaði en greinilegt er að hann á eitthvað í land að ná sér í það form sem þarf til að spila 40 mínútna leik. En þegar það gerist mega andstæðingar vara sig því þarna er um hörku leikmann að ræða og ekki laust að við Grindvíkingar hafi þarna loksins fundið sinn “Rondey Robinson”









