00:28
{mosimage}
(Deildarmeistarar Keflavíkur 2008)
Fyrirfram var lítil spenna tengd viðureign Keflavíkur og Fjölnis í Iceland Express deild karla þar sem Fjölnismenn voru fallnir og Keflvíkingar þegar orðnir deildarmeistarar. Liðin mættust í Toyotahöllinni í kvöld þar sem Keflavík fór með stórsigur af hólmi. Lokatölur leiksins voru 93-58 Keflavík í vil sem tóku frumkvæðið strax í upphafi leiks.
Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur var að vonum sáttur í leikslok en Keflvíkingar mæta Þór Akureyri í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Hvernig líst þjálfaranum á fyrstu umferðina gegn Þór?
,,Mér líst bara fínt á þetta og þar sem Þór vann Snæfell hljóta þeir að vera góðir enda langt síðan Snæfell tapaði leik fyrir umferðina í kvöld,” sagði Sigurður en var leikurinn í Toyotahöllinni aldrei spennandi í kvöld? ,,Nei! Það vantaði ýmislegt í Fjölnisliðið en við spiluðum þrátt fyrir það ágætlega og leikur kvöldsins hefur lítið með framhaldið að gera. Nú höfum við góðan tíma fyrir fyrsta leik í úrslitakeppninni og það verður farið vel yfir málin,” sagði Sigurður.
Keflavík komst í 25-9 í upphafi leiks í kvöld og litu aldrei til baka eftir það. Þeir tóku svo sælir við Deilarmeistaratitlinum í leikslok. Bobby Walker var atkvæðamestur hjá Keflavík í kvöld með 24 stig og 6 fráköst en næstur honum kom Tommy Johnson með 19 stig. Hjá Fjölni var Anthony Drejaj stigahæstur með 15 stig.
Mynd: www.vf.is



