spot_img
HomeFréttirShouse: Stórt stökk úr Drangi í Snæfell

Shouse: Stórt stökk úr Drangi í Snæfell

15:24
{mosimage}

(Justin Shouse) 

Justin Shouse var í dag valinn besti leikmaður umferða 16-22 í Iceland Express deild karla. Shouse gerði 20,3 stig í þessum sjö leikjum og unnu Snæfellingar sex leiki en töpuðu einum. Þá var Shouse einnig með 7,0 stoðsendingar að meðaltali í leik og 3,4 stolna bolta. Hann sagði í samtali við Karfan.is að það hefði verið nokkurt menningarsjokk að koma fyrst frá Bandaríkjunum til Íslands því hann var upprunalega á mála hjá Drangi og lék með þeim í 1. deildinni en Drangur telfdi fram liði frá Vík í Mýrdal. Þaðan lá leiðin í Stykkishólm en þessi knái Bandaríkjamaður segist kunna vel við sig í smáum samfélögum þó hann hafi alist upp við allt önnur búsetuskilyrði. 

,,Það var stórt stökk fyrir mig að skipta úr Drangi yfir í Snæfell og ég átti erfitt uppdráttar með liðinu á minni fyrstu leiktíð og ef ég hefði farið til annarra liða á Íslandi hefði ég örugglega verið sendur heim en Snæfell hafði trú á mér og þeir ákváðu að hafa mig áfram,” sagði Shouse sem stýrt hefur leik Snæfellinga af miklum myndarskap í vetur.  

,,Þjálfarinn (Kotila) hafði einnig trú á mér og þetta samstarf mitt við Snæfell hefur gengið vel en báðir aðilar hafa þurft að sýna af sér töluverða þolinmæði,” sagði Shouse. Hann kvaðst ekki ánægður með gamla þjálfarann sinn hjá Vík í Mýrdal. ,,Sá þjálfari gerði lítið fyrir mig, ég tók engum framförum,” sagði Shouse og hló en hann var spilandi þjálfari Drangs. ,,Kotila er miklu betri þjálfari en þessi sem var með Drang,” sagði Shouse sem er frá Erie í Pennsilvaníu í Bandaríkjunum.

,,Þó þetta hafi verið smávægilegt menningarsjokk þá kynnist þú svo mörgum í svona litlu samfélagi og það hefur verið mögnuð reynsla að búa bæði á Vík og í Hólminum. Ég bar t.d. út blöð á Vík í Mýrdal. Ég sá mig ekki þessum sporum þegar ég var yngri, ég hélt alltaf að ég yrði leikstjórnandi hjá Lakers en þetta er öðruvísi og frábær upplifun,” sagði Shouse hress í bragði. 

Hvernig líst honum svo á einvígið gegn Njarðvík í úrslitakeppninni?
,,Við eigum stóran hóp stuðningsmanna um allt land og sama hvar við spilum þá eru alltaf einhverjir áhorfendur að styðja okkur. Það er frábært hvað margir leggja leið sína á leikina okkar og styðja við bakið á okkur og ég er þess fullviss að það verði fjölmenni á Njarðvíkurleikjunum.” 

Shouse var vitaskuld ánægður með verðlaunin í dag að vera valinn besti leikmaður umferðanna og sagðist hann leika af eins mikilli hörku og hann ætti til í sér. ,,Þegar maður leggur sig allan í þetta þá gerast góðir hlutir eins og í dag,” sagði Shouse 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -