spot_img
HomeFréttirÚrslitakeppni karla hefst á morgun

Úrslitakeppni karla hefst á morgun

12:08
{mosimage}

 

Baráttan um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki hefst á morgun en sem fyrr eru það átta lið sem skipa úrslitakeppnina og í þessari fyrstu umferð er það liðið sem fyrr vinnur tvo leiki sem kemst áfram í undanúrslitin. Á morgun ríða Keflavík og Grindavík á vaðið með heimaleikjum kl. 19:15 þegar Keflavík tekur á móti Þór Akureyri og Grindavík mætir Skallagrím. Á laugardag mætast svo Njarðvík og Snæfell í Ljónagryfjunni og Íslandsmeistarar KR taka á móti ÍR í DHL-Höllinni en leikirnir á laugardag hefjast kl. 16:00.

 

Iceland Express hefur styrkt myndarlega við bakið á íslenskum körfuknattleik síðustu misseri og hafa t.d. boðið upp á borgarskotin skemmtilegu þar sem fjölmargir körfuknattleiksáhugamenn hafa unnið sér inn flugferðir. Nú mun Iceland Express gera enn betur en það lið sem verður Íslandsmeistari mun hljóta 700.000,- kr. í peningaverðlaun. 

Stöð 2 sport mun sýna beint frá leikjum í úrslitakeppninni og hefja kappanir beinar útsendingar í Ljónagryfjunni á laugardag þegar Snæfellingar heimsækja Njarðvík. Næsti leikur er svo viðureign ÍR og KR í Vesturbænum á mánudag.  

Það er því nóg um að vera í körfunni þessa dagana en úrslitaeinvígið í 1. deild karla hefst á föstudag en þar mætast FSu og Valur. Breiðablik hefur þegar tryggt sér sæti í Iceland Express deildinni en það lið sem hefur sigur í rimmum FSu og Vals mun fylgja Blikum upp um deild. FSu og Breiðablik mætast í sínum fyrsta leik í Iðu á Selfossi á föstudagskvöld kl. 19:15 á föstudag. 

Þá er þess ekki lengi að bíða að úrslitaeinvígi KR og Keflavíkur í kvennaboltanum hefjist en fyrsti leikur liðanna fer fram í Toyotahöllinni í Keflavík á sunnudag kl. 16:00. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari. KR lagði Grindavík á leið sinni í úrslit og Keflavík fór í gegnum Hauka. 

[email protected]

Á myndinni frá vinstri eru: Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur, Teitur Örlygsson þjálfari UMFN, Friðrik Pétur Ragnarsson þjálfari UMFG, Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ÍR, Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs á Akureyri, Benedikt Guðmundsson þjálfari Íslandsmeistara KR, Pálmi Sævarsson leikmaður Skallagríms og Sigurður Á. Þorvaldsson leikmaður Snæfells.

Fréttir
- Auglýsing -