10:00
{mosimage}
(Gunnhildur Gunnarsdóttir)
Gunnhildur Gunnarsdóttir er 17 ára leikmaður hjá Snæfell sem er nú þegar búið að tryggja sér sigur í 1.deild kvenna og þar af leiðandi sæti í efstu deild að ári. Snæfell mun spila sinn síðasta leik í deildinni í kvöld gegn Njarðvík og segir Gunnhildur að þær ætli sér sigur í kvöld og vera taplausar í lok tímabilsins.
Gunnhildur er lykilmaður í liði Snæfells og hefur skorað 16,6 stig að meðaltali í vetur og hefur bætt sig frá því í fyrra er hún skoraði 13,3 stig í leik. Einnig hefur hún spilað marga unglingalandsliðsleiki og er ein af efnilegri leikmönnum landsins í dag. Karfan.is átti stutt spjall við hana og spurði hana út í veturinn og framhaldið hjá Snæfell
Núna er þetta aðeins ykkar annar vetur í 1.deild – var stefnan sett á að vinna deildina í upphafi veturs?
Já auðvitað er stefnan alltaf sett á að vinna sýna deild og við gerðum það .
Hvernig finnst þér 1.deildina hafa verið í vetur?
Þetta er búið að vera frekar auðvelt í vetur þar sem við vorum að vinna flesta leiki með 15+, en svo komu erfiðir og skemmtilegir leikir inná milli.
Er eitthvað sérstakt sem þú telur að hafi skilað ykkur þessum titli?
Bara mjög góður liðsandi fyrst og fremst. Einnig fengum við nokkra nýja leikmenn í byrjun tímabils, sem dæmi má nefna Öldu Leif en hún er svakalega góður leikmaður og mikill reynslubolti.
Nú eruð þið flestar mjög ungar í liðinu, heldur þú að þið séuð tilbúnar fyrir efstu deild?
Jájá, við vitum að þetta verður erfitt og að það verður mikil breyting að spila í efstu deild. En við munum gera okkar besta og reyna að hafa gaman af.
Munu allir leikmenn skila sér aftur í liðið næsta haust eða munu einhverjar hætta eða flytja ef til vill suður vegna náms eða annarra ástæðna?
Já, ég veit ekki um neina sem ætlar að fara suður eða hætta. En við erum með mikið af ungum leikmönnum sem koma þá bara í staðin ef einhver hættir.
{mosimage}
(Sigurlið Snæfells í 1. deild kvenna 2008)
Verður reynt að ná til baka gömlum Snæfellingum sem spila í öðrum liðum t.d. Hildi Sigurðardóttir sem er nú í KR?
Það er aldrei að vita 😉 .. annars erum við ekkert farin að spá í það, þar sem við eigum enþá einn leik eftir og deildin er ekki búin, ætlum að taka þann leik með stæl og klára deildina taplausar!
Hvernig líst þér á að vera að fara að spila í efstu deild á næsta ári?
Mér lýst bara mjög vel á það. Maður verður bara betri leikmaður þegar maður spilar á móti einstaklingum sem eru bæði sterkari og reynslumeiri en maður sjálfur.
Hvernig er svo andrúmsloftið í bæjarfélaginu núna, þið búnar að tryggja ykkur sæti í efstu deild og strákarnir bikarmeistarar?
Stuðningsmannahópurinn í Stykkishólmi er frábær, bæði hjá okkur stelpunum og strákunum. Það eru í kringum 100 manns að mæta á leiki hjá okkur sem telst mjög gott fyrir kvennalið í 1.deild. Svo er bara spurningin hvort það fjölgi ekki bara í stúkunni hjá okkur á næsta ári þegar við verðum farnar að spila í efstu deild.
Bryndís Gunnlaugsdóttir
Myndir: Íris Huld Sigurbjörnsdóttir og [email protected]



