11:23
{mosimage}
(Bræður munu berjast! Ragnar og Ari mætast í úrslitum 1. deildar í kvöld. Ari leikur með FSu en Ragnar með Val. Hér eigast þeir bræður við í Vodafonehöllinni fyrr á leiktíðinni)
Nú er komið að því! Úrslitakeppnin í Iceland Express deild karla hefst í kvöld kl. 19:15 með tveimur leikjum. Þá hefst úrslitaeinvígi FSu og Vals í 1. deild karla en einnig verður leikið í 1. deild kvenna og 2. deild karla.
Við hefjum yfirferðina í Toyotahöllinni í Keflavík þar sem heimamenn taka á móti Þór Akureyri kl. 19:15 í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla. Keflavík er deildarmeistari í ár en Þór lauk keppni í 8. sæti deildarinnar og var því síðasta liðið inn í úrslitakeppnina. Keflavík vann báðar deildarviðureignir liðanna í vetur.
Borgarskot Iceland Express verður á sínum stað. Í Keflavík á leik Þórs og heimamanna verður skotið upp á ferð til Stokkhólms og í Grindavík á leik heimamanna gegn Skallagrím verður skotið upp á ferð til Varsjá í Póllandi.
Þá mætast Grindavík og Skallagrímur í Röstinni í Grindavík og hefst sá leikur einnig kl. 19:15. Grindavík lauk keppni í 3. sæti deildarkeppninnar en Skallagrímur hafnaði í 6. sæti. Grindvíkingar unnu báðar deildarviðureignir liðanna í vetur.
Á Selfossi kl. 19:15 hefst svo úrslitaeinvígi FSu og Vals í 1. deild karla. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki í einvíginu fer upp í Iceland Express deildina með deildarmeisturum Breiðabliks. FSu og og Valur mættust tvívegis í deildinni í vetur þar sem FSu vann fyrri leikinn 84-69 en Valsmenn höfðu betur í Vodafonehöllinni 94-89.
Þrír leikir áttu að fara fram í 1. deild kvenna en þeir verða í raun tveir. Breiðablik hefur gefið leikinn sinn gegn Skallagrím sökum manneklu. Þá mætast deildarmeistarar Snæfells og Njarðvík í Ljónagryfjunni kl. 19:15 þar sem verslunin Kostur í Njarðvík býður frítt á leikinn. Þór Akureyri tekur svo á móti KR B í Höllinni á Akureyri kl. 20:30.
Í 2. deild karla mætast svo KR B og Haukar B kl. 21.15 í DHL-Höllinni í Vesturbænum.
Það verður því nóg um að vera í kvöld og ættu flestir körfuknattleiksáhugamenn að finna eitthvað við sitt hæfi.



