spot_img
HomeFréttirSagt eftir leik á Selfossi: Valsmenn

Sagt eftir leik á Selfossi: Valsmenn

11:00

{mosimage}

FSu tryggði sér sæti í Iceland Express-deild karla að ári. Karfan.is var að sjálfsögðu á staðnum og ræddi við leikmenn og þjálfara að leik loknum.

Rob Hodgson og Sævaldur Bjarnason
Þjálfarateymi Vals sögðu leikinn hafa tapast á vítaskotum og fráköstum. ,,Okkur tókst í raun að spila okkar leik ágætlega, en við ætluðum okkur að halda aftur af þeim fyrir utan þriggja stiga línuna. Við ætluðum okkur að koma boltanum undir körfuna sem gekk ágætlega í fyrr hálfleik og að koma þeim í villuvandræði, þar sem vantaði aðeins herslumuninn til að breyta leiknum. Í seinni hálfleik voru það hins vegar vítasnýtingin okkar og fráköstin sem þeir hirtu sem gerði út um leikinn en þeir hirtu yfir 40 fráköst á móti 20 og eitthvað hjá okkur sem er bara alls ekki nógu gott.” Valsmenn voru vægast sagt arfaslakir á vítalínunni í leiknum og Rob Hodgson var að vonum mjög ósáttur með það. ,,Við erum gott lið og erum með yfir 70% vítanýtingu og í svona jöfnum leik dugar þessi nýting ekki.” Rob vildi þó meina að svona úrslitaseríu þar sem tvö frábær lið ættust við væri það ekki eitt lokaskot sem færði sigurinn, það væru litlu hlutirnir. ,,Samskiptaleysi í vörn og það opnast fyrri einn leikmann sem fær opið sniðskot, það eru litlu hlutirnir sem telja en ekki eitt skot í lokin.”

Báðir þjálfarar Vals tóku í sama streng um framtíðina og vildu hvorugir fara neitt. Þeir segjast vera að byggja upp ákveðin kjarna í Val sem þeir vilji halda áfram að vinna með. 

Sævaldur Bjarnason var þó ánægður með tímabilið þegar litið var til baka. ,,Þetta var hörkutímabil, við áttum í smá vandræðum fyrir jól en komum til baka eftir áramót.”

{mosimage}

Steingrímur Ingólfsson
Steingrímur Ingólfsson leikstjórnandi Vals var að vonum nokkuð þungur á brún þegar Karfan.is náði tali af honum eftir leikinn gegn FSU. Steingrímur hefur spilað með meistaraflokki Vals í nokkur ár og hefur því upplifað þessa tilfinningu áður. ,,Það er ekki hægt að segja að þetta séu einhverjir draugar fortíðarinnar því við erum með glænýtt lið, 3 útlendinga og góðan hóp.” Hann var þó ekki margorður um leik kvöldins. ,,Þetta var hörkuleikur en það datt bara þeirra megin, það er það eina sem ég get sagt. Það er margt sem við hefðum getað gert betur og líka margt sem þeir hefðu getað gert betur. Svona er þetta bara.”

Sjá einnig:
Sagt eftir leik á Selfossi: FSumenn
Aðeins eitt FSu – Umfjöllun

Gísli Ólafsson

Myndir: Snorri Örn Arnaldsson

Fréttir
- Auglýsing -