21:30
{mosimage}
Stöð 2 Sport var með beina útsendingu frá oddaleikjum kvöldsins. Arnar Björnsson og Hans Steinar Bjarnason tóku leikmenn og þjálfara tali eftir leik.
Hreggviður Magnússon átti stórleik í kvöld og var sigurreifur eftir leikinn. ,,Að sjálfsögðu vissum við að myndum vinna. Við erum með gott lið og sterkara en KR. Ég fór með fleyg orð í fjölmiðlum eftir síðasta leik en ég stóð við mín orð en Fannar ekki,” sagði Hreggviður í viðtali við Arnar Björnsson. ,,Fannar talaði um rasskellingu, líttu á töfluna, þetta er rasskelling,” sagði Hreggviður og sagði að sigurvegari þessara seríu fari alla leið.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, sagði við Arnar Björnsson að hann taki tapið á sig enda bæri hann ábyrgð á liðinu. ,,ÍR-ingar stóðu sig vel í kvöld og mættu tilbúnir til leiks og spiluðu sinn besta leik,” sagði Benedikt og reyndi að útskýra af hverju liði hans gekk ekki betur. ,,Mér fannst við aldrei inni í þessu. Þeir tóku þetta frá upphafi og settu upp flugeldasýningu í byrjun. Ég veit eiginlega ekki hvað þeir settu marga þrista. Við erum búnir að hitta illa í þessari seríu og vandræðast í sókninni. Mér hefur ekki gengið að fá það besta út úr mönnum eins og Brynjari, Helga og Sola og ég tek þetta á mig. Mér fannst við vera flatir, annað hvort vorum við svona taugatrekktir eða góðir með okkur. Mér mistókst að mótivera liðið fyrir leik og ég tek þetta á mig,” sagði Benedikt og bætti við. ,,Ég er ábyrgur fyrir gengi liðsins og að dettta svona út í fyrstu umferð með svona lélegan leik er óásættanlegt."
Þorleifur Ólafsson var með flugeldasýningu fyrir Grindavík í kvöld og skoraði 30 stig. Hann sagði við Hans Steinar Bjarnason að Grindvíkingar verði að klára leiki sína betur. ,,Ég var að taka skotin og þau fóru ofaní. Ég er mjög sáttur með vörnina hjá okkur og það er það sem við töluðum um fyrir leikinn. Ef við ætlum að gera eitthvað í þessari úrslitakeppni verðum við að spila vörn. Ég er mjög sáttur,” sagði Þorleifur en Skallagrímsmenn unnu sig inn í leikinn þegar leið á. ,,Ef maður slakar á eru liðin fljót að koma til baka og það er ágætt að við fengum að kynnast því hér á heimavelli. Við erum svolítið frægir fyrir þetta og það er eitthvað sem við þurfum að laga. Við höfum ekki verið að klára leikinn almennilega og höfum sýnt þetta í vetur. Vonandi náum við að laga þetta.”
Pálmi Sævarsson fyrirliði Skallagríms var að vonum dapur í leikslok og sagði það erfitt að elta allan tímann. ,,Það vantaði herslumuninn og við hleyptum þeim alltof langt framúr okkur í byrjun og Páll Axel var að hitta rosalega vel. Það er alltaf erfitt að lenda undir á útivelli og elta allan leikinn. Við unnum okkur aftur inn í þetta og lögðum mikið á okkur en það dugði ekki til,” sagði Pálmi og þakkaði félögum sínum fyrir að gefast ekki upp þegar liðið lenti mikið undir. ,,Við höfðum vilja til að vinna og það eru allir í þessu til að vinna og við ætluðum ekkert að láta valta yfir okkur. Við vorum alltof nálægt því, það vantaði eina eða tvær körfur og þá hefðum við tekið þetta.”
Mynd: Snorri Örn



