14:15
{mosimage}
Langt er um liðið síðan ÍR sótti sigur á heimavöll Keflavíkur og því var Sveinbjörn Claessen að vonum ánægður í leikslok í gærkvöldi. ÍR varð í gær aðeins annað liðið til að ná sigri í Toyotahöllinni. Sveinbjörn gerði 11 stig, tók 7 fráköst og gaf 3 stoðsendingar í leiknum og sagði við Karfan.is í leikslok að nú væri lag og að ÍR þyrfti að halda áfram á sömu braut.
,,Ætli þetta sé ekki bara í þriðja skiptið sem ég sæki sigur til Keflavíkur. Annað skiptið var í úrslitakeppninni og það var fyrir fjórum árum síðan og sú sería endaði ekki vel en stefnan er að klára þetta núna. Þetta er bara einn sigur af þremur og nú er bara að halda áfram,” sagði Sveinbjörn í samtali við Karfan.is.
Aðspurður um álagið í úrslitakeppninni sagði Sveinbjörn að enginn hefði tíma til þess að vera þreyttur.
,,Þetta er fullorðins, það hefur enginn tíma til að vera þreyttur og við höfum verið að æfa og puða allt árið til þess að komast hingað. Nú er bara smá frí og svo annar leikurinn á miðvikudagskvöld í Íþróttahöll Seljaskóla og ég geri ráð fyrir Keflvíkingum bandbrjáluðum í
þeim leik enda ekki á hverjum degi sem þeir tapa á heimavelli. Nú þurfum við að mótivera
okkur því þetta er bara rétt að byrja,” sagði Sveinbjörn og kvaðst spenntur fyrir miðvikudagskvöldinu.
Mynd: [email protected]



