spot_img
HomeFréttirAldrei spurning um sigur í Seljaskóla(Umfjöllun)

Aldrei spurning um sigur í Seljaskóla(Umfjöllun)

22:57

{mosimage}

Körfuboltahátíð allra landsmanna hélt áfram í Seljaskóla í kvöld þegar ÍR tók á móti Keflavík í öðrum leik liðanna í fjögurra liða úrslitum Iceland Express deildarinnar.  ÍR komu nokkuð á óvart og unnu sigur i fyrsta leiknum á útivelli en í kvöld sýndu þeir að það hefði ekki átt að koma nokkrum manni á óvart.  ÍR-inga tóku deildarmeistara Keflavíkur í kennslustund og með Nate Brown í broddi fylkingar sigruðu heimamenn með 19 stiga mun, 94-77.


ÍR-ingar höfðu undirtökin allan leikinn og voru yfir frá fyrstu mínútu til þeirra seinustu fyrir utan milli fyrsta og annars leikhluta. Nate Brown fór á kostum í liði ÍR og stjórnaði leik liðsins án þess að stíga feilspor. Hann gaf 18 stoðsendingar í leiknum, tapaði boltanum aðeins 2 sinnum og skoraði 7 stig. Lið ÍR spilaði í raun ótrúlegan leik í kvöld því 5 leikmenn liðsins skoruðu yfir 10 stig og liðið var með 71% nýtingu í 2 stiga skotum. Leikmenn liðsins spiluðu sem liðsheild og hver og einn leikmaður vissi hvert hans hlutverk var á vellinum og skilaði því vel. Það var því aldrei spurning hvoru megin sigurinn færi í kvöld. Stigahæstir hjá ÍR voru Sveinbjörn Claessen með 19 stig, Tahirou Sani með 16 stig og 9 fráköst og Steinar Arason með 14 stig. Hjá gestunum frá Keflavík var Bobby Walker atkvæðamestur með 20 stig og 6 stoðsendingar, næstir voru Magnús Gunnarsson með 17 stig og Tommy Johnson með 14 stig.

{mosimage}

Keflvíkingar virtust ekki vera mættir fyrstu mínútuna eða svo því ÍR-ingar löbbuðu framhjá vörninni þeirra í tvígang og komust í 4-0. Þá tóku gestirnir hins vegar við sér og Tommy Johnson jafnaði metin með næstu 4 stigum. Heimamenn voru hins vegar mættir til þess að spila körfubolta og létu ekki slá sig út af laginu, þeir áttu næstu sveiflu og komust i 11-4 þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar. Hlutirnir voru ekki lengi að gerast og þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn orðin aðeins 1 stig, 11-10 og eftir það skiptust liðin á að skora. ÍR-ingar höfðu þó frumkvæðið allan fyrsta leikhluta og leiddu leikinn með 1-3 stigum allt þangað til að um mínúta var eftir þegar Jón Hafsteinsson setti annað af tveimur vítum ofaní og kom gestunum yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 21-22. Það urðu lokatölur leikhlutans.

Eftir mjög erfiða fyrstu sókn komu ÍR-ingar mjög sterkir inn í annan leikhluta og skoruðu gestirnir aðeins 2 stig á fyrstu þremur mínútunum gegn 7 stigum heimamanna. Það var Steinar Arason sem átti heiðurinn að 11 af fyrstu 13 stigum ÍR í leikhlutanum en hann hitti hreint út sagt ótrúlega. Þegar leikhlutinn var hálfnaður voru heimamenn því komnir 6 stigum yfir, 34-28. Eftir þessa sýningu frá Steinari skiptu Keflvíkingar úr svæðisvörn í maður á mann í þeirri von að loka á þriggja stiga skotin. Sigurði Ingimundarsyni leist illa á blikuna og þegar rúmlega fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik tók hann leiklé, en staðan var 38-30. ÍR-ingar áttu mjög góðan kafla þegar líða var farið á síðari hluta leikhlutans og Keflvíkingar tóku aftur leikhlé í stöðunni 45-34 þegar rétt rúmlega tvær mínútur lifðu af leikhlutanum. ÍR-ingar nýttu skotin sín vel og að spila fanta vörn hinu megin á vellinum sem skilaði sínu. Magnús Gunnarsson, alræmd þriggja stiga skytta Keflvíkinga, sat á meðan sem fastast á bekknum eftir nokkuð slakan leik framan að. Þegar flautað var til hálfleiks höfðu heimamenn því 14 stiga forystu, 51-37.

{mosimage}

Stigahæstir heimamanna í hálfleik voru Sveinbjörn Claessen með 12 stig, Steinar Arason með 11 stig og Eiríkur Önundarson með 7 stig. Hjá gestunum var Bobby Walker með 10 stig en næstir voru Tommy Johnson með 8 stig og Magnús Gunnarsson með 6 stig.  Nate nokkur Brown átti stórleik fyrir heimamenn í fyrri hálfleik en hann gaf 9 stoðsendingar og hirti 4 fráköst.

Keflvíkingar virtust enn og aftur ekki vera mættir þegar leikhlutinn byrjaði en þegar tvær mínútur liðnar af leikhlutanum var munurinn kominn upp í 20 stig og Sigurður Ingimundarsson tók leikhlé, 57-37. Keflvíkingar skiptu aftur í svæðisvörn í byrjun þrijða leikhluta og náðu með því að minnka munin örlítið en það dugði þó skammt því þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn aftur kominn í 20 stig og öll stemmingin hjá heimamönnum. Heimamenn sáu þó fram á vandræði með villur en Ólafur Sigurðsson, Hreggviður Magnússon og Sveinbjörn Claessen voru allir komnir með þrjár villur og Eiríkur Önundarson með 4 villur. Það var þó stutt stórra högga á milli því aðeins tveimur mínútum síðar var munurinn kominn niður í 15 stig og öll áhorfendastúkan stóð og lét vel í sér heyra. Þegar flautað var til loka leikhlutans höfðu heimamenn ennþá 16 stiga forskot, 73-57, og höfðu gestirnir ekki náð nær en 14 stig allan leikhlutan.

{mosimage}

Heimamenn voru hins vegar ekki lengi að endurheimta fyrra forskot og þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar var munurinn orðinn 21 stig og Keflvíkingar tóku leikhlé, 81-61.  Keflvíkingar áttu heiðarlega tilraun til að minnka forskot heimamanna niður með aggressívri pressuvörn sem Ír-ingar voru í miklu vandræðum með en fundu svo  svar með ótrúlegum þriggja stiga skotum sem lokaði á allar tilraunir gestana.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður fór Hreggviður Magnússon útaf með 5 villur en hann hafði fram að því skorað 15 stig ásamt því að vera mikilvægur hlekkur í virkilega góðum varnarleik heimamanna og því var þetta mikill missir fyrir ÍR. Ólafur Sigurðsson fór sömu leið suttu seinna og þegar þrjár mínútur voru eftir höfðu gestirnir minnkað muninn niður í 14 stig, 87-73. Nate Brown tók þá til sinna mála og bjó til laglega körfu fyrir Tahirou Sani ásamt því að stela boltanum í næstu sókn og segja má að ef einhver efaðist um sigur ÍR í leiknum hvarf sá vafi við þetta. Þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum sungu fjölmargir stuðningsmenn ÍR sigursöngva þegar bæði lið skiptu minni spámönnum inná völlinn til að klára leikinn. Leikurinn endaði svo með 19 stiga sigri heimamanna sem var í raun aldrei í hættu, 96-77.

 

Það er því alveg á hreinu að Deildarmeistarar Keflavíkur þurfa að skoða sinn leik fyrir þriðja leikinn ef þeir ætla ekki að láta sópa sér út úr úrslitakeppninni. Liðið fann sig aldrei í kvöld og sóknarleikur þeirra var einhæfur allan leikinn, þeir treystu á einstaklingsframtak og virtust fáir vera tilbúnir að taka af skarið. Á meðan var vart hægt að finna galla á leik heimamanna sem lokuðu vel í varnarleiknum, voru hreifanlegir og voru fljótir að finna heita manninn í sókn og opna fyrir hann skot.

Tölfræði

Umfjöllun: Gísli Ólafsson

Myndir: [email protected]

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -