spot_img
HomeFréttirGlæsilegt stoðsendingamet

Glæsilegt stoðsendingamet

13:00

{mosimage}

ÍR-ingurinn Nate Brown komst í metabækurnar á miðvikudagskvöldið þegar hann bætti níu ára met Warrens Peebles með því að gefa 18 stoðsendingar í 94-77 sigri ÍR á deildarmeisturum Keflavíkur.

Það merkilega var að hann skaut aðeins fjórum sinnum á körfuna og tapaði boltanum bara tvisvar sinnum í leiknum og einbeitti sér að því að spila góða vörn og stjórna leik síns liðs. Það sýnir líka hversu mikið hann var að sprengja upp Keflavíkurvörnina að aðeins ein af þessum átján stoðsendingum var fyrir þriggja stiga skot, sem eru jafnan auðveldustu sendingarnar að gefa.

Nate Brown hefur leikið stórkostlega í úrslitakeppninni og hefur alls gefið 51 stoðsendingu á félaga sína í 5 leikjum sem gera 10,2 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann var einnig sá leikmaður sem gaf flestar stoðsendingar í leik í deildarkeppninni, 108 í 14 leikjum eða 7,7 að meðaltali í leik.

Warren Peebles setti sitt met í tapi Grindavíkur í Keflavíkur í þríframlengdum undanúrslitaleik liðanna 9. apríl 1999 en að auki var hann með 31 stig og 10 fráköst í leiknum.

Nate bætti því líka met þeirra Anthony Q. Jones og félaga síns Eiríks Önundarsonar sem voru þeir tveir leikmenn sem höfðu átt flestar stoðsendingar í venjulegum leiktíma, Eiríkur gegn Keflavík í átta liða úrslitum 2003 og Anthony í átta liða úrslitum árið eftir.

Nate Brown varð enn fremur aðeins annar leikmaðurinn í sögu Íslandsmótsins til þess að gefa svo margar stoðsendingar í einum leik því KR-ingurinn David Edwards gaf einnig 18 stoðsendingar gegn ÍR í deildar­leik 8. desember 1996.

Nate gaf sex af þessum stoðsendingum fyrir hraðaupphlaupskörfur og aðrar sex fyrir körfur skoraðar inni í teig. Hinar sex gaf hann á leikmenn sem skoruðu með skotum fyrir utan teig (5) eða úr þriggja stiga skoti (1).

www.visir.is

Mynd: [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -