12:17
{mosimage}
(Arnar er ,,sendiherra” Húsavíkurbæjar)
Oddaleikur Keflavíkur og ÍR í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar verður í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport kl. 19:15 í kvöld. Íþróttafréttamaðurinn góðkunni Arnar Björnsson mun lýsa leiknum en Karfan.is náði tali af kappanum sem vonaðist til þess að dagskrá Stöðvar 2 Sport færi verulega úr skorðum í kvöld í tvíframlengdum leik í Toyotahöllinni.
,,Ef ég á að vera heiðarlegur þá er margt sem segir mér að Keflvíkingar séu líklegir sigurvegarar í kvöld og ég byggi það á því að þetta lið er ótrúlegt. Þeir vita hvað það er að vinna en það má alls ekki afskrifa þetta ÍR-lið sem hefur komið mér verulega á óvart í ljósi þess hvað þeir voru að gera framan af móti,” sagði Arnar en nú á síðari hluta leiktíðarinnar hefur verið mikill stígandi í bikarmeisturum síðasta árs.
,,Í Keflavíkurliðinu eru grjótharðir naglar og ég er nokkuð viss um að ef þeir haldi takti verður þetta erfiður leikur fyrir ÍR en ég vona nú samt að við fáum sömu stemmningu og undanfarið. Þessi íþrótt er að öðlast nýtt líf og athyglisvert er að bera saman körfuna og handboltann í stemmningunni en karfan er þar mörgum þrepum fyrir ofan sem er hrós í hnappagat hreyfingarinnar,” sagði Arnar og bætti við að keppnin í ár hafi sjaldan eða aldrei verði jafn rosalega spennandi.
,,Ef maður lítur til baka og safnar þessu saman þá er sigurhefðin í Keflavík og þeir eru góðir á ögurstundu sem ætti að færa liðinu nokkur stig í plús. ÍR hefur þó farið illa með sterka andstæðinga og helst vil ég fá tvær framlengingar í kvöld þannig að dagskráin hjá okkur fari verulega úr skorðum fyrir úrvalsefni,” sagði Arnar og spennan leyndi sér ekki hjá kappanum.
Mynd: www.skarpur.is



