11:00
{mosimage}
(Þrennan í alls konar skilningi)
Snæfellingar mæta Keflvíkingum í dag kl. 16:00 í fyrsta leik úrslitanna um Íslandsmeistaratitilinn. Sigurður Þorvaldsson stórskytta Snæfellinga fór á kostum í síðasta leik gegn Grindavík þar sem hann skoraði 39 stig. Sigurður sagði að lið hans væri ekki að fara styðstu leiðina í úrslit enda hafa þeir mætt tveimur Suðurnesjaliðum á leið sinni og það þriðja verður á vegi þeirra í dag.
Snæfell eru búnir að slá út Njarðvík og Grindavík og nú mæta þeir Keflavík. Sigurður er vongóður fyrir úrslitin og býst hann við hörkuleikjum. ,,Við erum búnir að undirbúa okkur vel og erum núna að fara mæta þriðja Suðurnesjaliðinu í röð. Við erum ekkert að fara léttustu leiðina og erum að taka mekka körfuboltans í einni úrslitakeppni og það verður verkefni dagsins að fara í mekkað,” sagði Sigurður sem telur liðin vera áþekk. ,,Þeir hafa ákveðna styrkleika yfir okkur og við yfir þá og ef við ætlum að vinna þá þurfum við að halda okkar game-plani og nýta styrkleika okkar, þá eigum við fína möguleika. Ef við förum í run og gun bolta með Keflavík þá töpum við. Við verðum að spila okkar leik og ekki detta í þeirra form. Þeir vilja taka snögg skot og fá margar sóknir en við ætlum að reyna vera klárari og vera með gott skotval. Ekki taka fyrsta skot eftir eina sendingu í hverri sókn.”
{mosimage}
(Sigurður Þorvaldsson fór á kostum í Hólminum í síðasta leik)
Liðin hafa mæst þrisvar í vetur og ávallt verið um hörkuleiki að ræða. ,,Allir leikir okkar í vetur hafa verið hörkuleikir. Sá fyrsti var framlengdur þar sem fyrri og seinni hálfleikur var eins og svart og hvítt. Keflavík miklu betri í fyrri hálfleik og við í þeim seinni þannig að ég held að allir leikirnir eigi eftir að ráðast á síðustu mínútunni,” sagði Sigurður en Keflvíkingar eiga heimavallarréttinn og því þarf Snæfell a.m.k. að vinna einn leik í Keflavík. ,,Ef við gerum okkar á heimavelli og tökum þá leiki þá fáum við þrjá sjénsa til að taka einn í Keflavík. Það sem er mikilvægast er að tapa ekki heimaleikjunum og sjá hvað við getum gert í Keflavík.”
Myndir: [email protected] og Símon Hjaltalín



