20:26
{mosimage}
Lottomatica Roma (22-11) tók á móti Scavolini Spar Pesaro í dag og sigraði örugglega 92-74. Jón Arnór Stefánsson lék ekki með en hann fékk hné í lærið gegn Montegranaro og blæddi inn á vöðvann. Hann var því hvíldur í dag en ekker er von til að hann verði lengi frá. Með sigrinum og öðrum úrslitum dagsins komst Roma aftur í annað sæti deildarinnar en aðeins er ein umferð eftir í deildinni.
Logi Gunnarsson lék ekki með Gijon (21-9) sem sigraði Imaje Sabadell Gapsa 75-65 á heimavelli í gær.
Jakob Örn Sigurðarson átti góðan leik fyrir Univer sem sigraði Zalakerámica ZTE KK 94-77 í lokaleik ungversku deildarinnar á föstudag. Jakob lék í 32 mínútur og skoraði 24 stig, hitti úr 6 af 7 tveggja stiga skotum sínum, 3 af 5 þriggja stiga, 3 af 4 vítum, tók 5 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Nú tekur við úrslitakeppni hjá Jakobi og félögum um að forða sér frá falli.
Huelva (13-17) sem Pavel Ermolinskij leikur með tapaði á útivelli gegn CB Villa de los Barrios 85-83 í LEB gull deildinni. Pavel lék ekki með vegna meiðsla.
Horsens BC sem Halldór Karlsson leikur með vann lokaleik sinn í dönsku 3. deildinni um helgina gegn Svendborg 3, 86-82, og lauk liðið því keppni í toppsæti deildarinnar og leikur í 2. deild að ári.
Damon Johnson skoraði 16 stig og tók 4 fráköst þegar lið hans Cantabria (10-20) heimsótti Alicante Costa Blanca um helgina. Alicante sigraði 97-72 og er Cantabria komið á botn LEB gull deildarinnar.
Mirco Virijevic og félagar í Bayern Munchen sigruðu COOCOON Baskets Weiden 79-110 á útivelli í þýsku 1. Regionalliga. Þetta var síðasti leikur liðsins í deildinni í vetur en þeir tryggðu sér sigur í henni fyrir skömmu. Mirko skoraði 19 stig í leiknum.
Mynd: www.universport.hu



