spot_img
HomeFréttirNBA: Öruggt hjá Hornets gegn Dallas

NBA: Öruggt hjá Hornets gegn Dallas

08:58
{mosimage}

 

(Grjótharður! Chris Paul gefur ekkert eftir) 

 

Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt þar sem New Orleans Hornets, San Antonio Spurs og Orlando Magic komust öll í 2-0 gegn andstæðingum sínum. Chris Paul fór enn og aftur á kostum í liði Hornets en í nótt gerði hann 32 stig, gaf 17 stoðsendingar og tók 5 fráköst er Hornets skelltu Dallas 127-103. Paul hefur óðar verið að stíga upp sem einhver skæðasti leikstjórnandi deildarinnar og sést það vel á leik Hornets sem settu félagsmet gegn Dallas í nótt. Aldrei áður í úrslitakeppni hefur Hornets gert 39 stig í einum leikhluta en staðan að loknum fyrsta leikhluta í nótt var 39-29 Hornets í vil.

 

Dirk Nowitzki var stigahæstur í liði Dallas með 27 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar en liðsmenn Dallas áttu í vök að verjast. Vörn Hornets er með besta móti þessa dagana og liðið gerir fá mistök í sókninni en Hornets töpuðu aðeins sex boltum í leiknum en Dallas tapaði 15.

 

Mjótt var á mununum hjá Orlando Magic og Toronto Raptors. Magic lönduðu naumum 104-103 sigri á heimavelli og leiða einvígið 2-0. Chris Bosh átti lokaorð leiksins fyrir Raptors en teigskot hans vildi ekki niður og því fögnuðu Orlando sigri. Dwight Howard var með aðra tröllatvennu fyrir Magic í nótt þegar hann gerði 29 stig og tók 20 fráköst. Í liði Raptors var Bosh atkvæðamestur með 29 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar.

 

Meistarar Spurs höfðu annan sigur í nótt á Phoenix Suns 102-96 í AT&T Center í San Antonio. Tony Parker átti góðan dag í liði Spurs með 32 stig og 7 stoðsendingar en í liði Suns var Amare Stoudemire með 33 stig og 7 fráköst.

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -