spot_img
HomeFréttirAlda Leif Jónsdóttir: Ætli ég sé ekki meira stressuð en Siggi

Alda Leif Jónsdóttir: Ætli ég sé ekki meira stressuð en Siggi

12:00

{mosimage}

Það er ekki bara í Keflavík sem konurnar þurfa að eiga við kallana í undirbúningi fyrir leik, í Stykkishólmi býr hin leikreynda Alda Leif Jónsdóttir með Sigurði Þorvaldssyni og barni.

Karfan.is náði á henni og lagði fyrir hana spurningar

Hvernig er andrúmsloftið á heimilinu á leikdag?
Það er nú bara frekar afslappað – Siggi er nú ekki mikið að stressa sig á hlutunum, ætli ég sé ekki meira stressuð en hann!

Er hann með einhverjar sérþarfir? Þarftu að baka brauð handa honum í morgunmat eða eitthvað þess háttar?
Nei ég get nú ekki sagt að hann sé með sérþarfir en ég reyni nú oftast að hafa eitthvað gott í kvöldmatinn daginn fyrir leik og gera nógu mikið svo það sé afgangur í hádeginu daginn eftir. Svo gerðum við samning fyrir veturinn að sá/sú sem er að spila fær að sofa út á leikdag ef leikur er á frídegi.   

En eftir leik, er mikill munur eftir sigur eða tapleik?
Siggi er nú mun kátari eftir sigurleik eins og gefur að skilja. En annars finn ég ekki mikið fyrir því nema að hann fer alltaf mun seinna að sofa eftir tapleiki.

En að sitja upp í stúku og horfa á baráttuna? Sjá kannski kallinn verða fyrir hnjaski.
Það er aldrei gaman að sjá einhvern meiðast, hvað þá einhvern nákominn – en það fylgir þessu. En það er alltaf gaman að horfa á körfuboltaleiki og stemmningin hér í Hólminum er frábær. Reyndar eftir að litla stelpan okkar byrjaði að labba er hún yfirleitt komin út um allt og mesta athyglin fer í að fylgjast með henni.

Hvernig er með konur/kærustur leikmanna, sitjið þið saman á leikjum, hittist þið fyrir leik?
Það er allur gangur á því – við höfum gert svolítið af því að hittast fyrir heimaleiki, borða kannski saman og fara svo á leikinn. Við barnafólkið tökum oftast börnin með á leikina og þeim finnst líka gaman að hittast og leika sér.  

[email protected]

Mynd: Gunnhildur Erna Theódórsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -