FSU tryggði sér sæti í úrslitaleiknum í Unglingaflokki með sigri á KR í DHL höllinni fyrr í kvöld. Eftir að hafa verið 14-20 stigum yfir allan leikinn missti KR leikinn klaufalega niður á lokamínútunum og enduðu leikmenn FSU á að klára leikinn með körfu þegar 2 sekúndur voru til leiksloka.
Athygli vakti að Brynjar Karl Sigurðsson sem rekinn var útúr húsi eftir að hafa fengið á sig tvær tæknivillur í 3. leikhluta fór ekki inní búningklefa eins og reglur KKÍ og FIBA gera ráð fyrir heldur settist uppí stúku þar sem hann lét heldur ófriðlega það sem eftir lifði leiks. Eftir að FSU skoraði sigurkörfuna með 2 sekúndur á klukkunni öskraði Brynjar ítrekað leiðbeinandi skilaboð inná völlinn og setti í raun og veru upp varnarleik FSU manna í síðustu sókn KR í leiknum.
Hvort þetta eigi eftir að hafa einhverja eftirmála skal ósagt látið en ljóst er að Brynjar fór ekki að reglum KKÍ.
Í 37.1.3 grein laganna segir:
37.1.3 Þjálfara skal einnig vísað af leikvelli þegar:
- • Hann fær tvær tæknivillur (C) vegna óíþróttamannslegarar hegðunar sinnar.
- • Hann fær þrjár tæknivillur vegna óíþróttamannslegrar hegðunar frá varamannabekk (B) (aðstoðarþjálfara, varamanna eða fylgismanna) eða sambland af þremur tæknivillum þar sem ein er vegna óíþróttamannslegrar hegðunar hans (C).
Í framhaldinu fylgir svo:
- 37.2.2 Honum skal vísað af leikvelli og skal fara til búningsherbergja liðs síns og halda sig þar á meðan á leik stendur eða, ef hann svo kýs, yfirgefa íþróttahúsið.
Það fer því ekki á milli mála að Brynjar braut vísvitandi reglur Körfuknattleikssambandsins og ljóst að ekki voru allir sáttir með framkomu hans í þessum leik.



