09:53
{mosimage}
(Kobe Bryant var sáttur í leikslok)
Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt þar sem Atlanta Hawks tókst að jafna metin í 2-2 gegn Boston Celtics. Lokatölur í leik Atlanta og Celtics voru 97-92 Atlanta í vil en nú færist einvígið aftur til Boston og verður leikið á sínum hvorum heimavelli liðanna þar til úrslit nást. Joe Johnson var grimmur í liði Atlanta í nótt og gerði 35 stig og gaf 6 stoðsendingar. Hjá Celtics var Ray Allen atkvæðamestur með 21 stig og 4 stoðsendingar. Aðeins einn leikmaður í leiknum náði tvennu en það var Rajon Rondo með 14 stig og 12 stoðsendingar.
Lakers héldu uppteknum hætti og lögðu Denver Nuggets 101-107 í Pepsi Center í Denver og þar með eru Denver komnir í sumarfrí en Lakers unnu einvígið 4-0. Kobe Bryant var atkvæðamestur í liði Lakers með 31 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar. Hjá Nuggets var JR Smith stigahæstur með 26 stig.
Þá komust Orlando Magic einnig áfram í úrslitakeppninni en þeir unnu sína seríu 4-1 gegn Toronto Raptors. Liðin mættust í Amway Arena í Orlando í nótt þar sem heimamenn fóru með 102-92 sigur af hólmi. Ofurmennið Dwight Howard landaði tröllatvennu með 21 stig og 21 frákast en Chris Bosh gerði 16 stig og tók 9 fráköst fyrir Raptors.
Mynd: AP



