18:10
{mosimage}
(Haukur Óskarsson)
Norðurlandamót unglinga hefst í Solna í Svíþjóð í kvöld en Ísland sendir fjögur lið til leiks. Karla- og kvennalið í U 16 og slíkt hið sama í U 18 ára. Leikirnir í Svíþjóð hefjast kl. 21:00 að staðartíma en það mun vera kl. 19:00 á Fróni.
18 ára landslið karla leikur í kvöld gegn sterku liði Finna og má fastlega búast við hörkuleik. Finnar sigruðu Íslendinga fyrir 2 árum í hörkuleik og eru strákarnir staðráðnir í að hefna fyrir það í kvöld. Á sama tíma mæta U 18 ára stelpurnar Dönum. Leikið er í Solnahallen á tveimur völlum og fara leikirnir fram samtímis, á samliggjandi völlum. Karfan.is mun fylgjast náið með báðum leikjum og færa fréttir af gangi mála.
Karfan.is tók Hauk Óskarsson frá Haukum, leikmann 18 ára landsliðs karla tali og spurði hann nokkurra spurninga.
Hvernig hefur undirbúningi liðsins verið háttað fyrir Norðurlandamótið?
Við erum búnir að spila mikið saman og höfum átt nokkrar góðar æfingar núna rétt fyrir mótið. Okkur hefur tekist að bæta liðsheildina, sérstaklega í leiknum gegn bandaríska liðinu fyrir viku og tókst að smella vel saman þar, við fengum mikið út úr þeim leik. Það var eiginlega okkar besta æfing og við græddum hvað mest á því.
16 ára liðið sem þú varst hluti af í fyrra urðu Norðurlandameistarar, heldur þú að 18 ára liðinu takist að leika það eftir í ár?
Já já, við stefnum eins og hátt og hægt er og gerum eins gott úr þessu og við getum.
Hvað þarf að ganga upp til að þið verðið Norðurlandameistarar í ár?
Vörnin og liðsheildin þarf að smella, einfalt mál.
Að lokum, hvernig fer leikurinn í kvöld?
Ísland vinnur!
Texti og mynd: Snorri Örn Arnaldsson



