22:39
{mosimage}
(Örn Sigurðarson var stigahæstur Íslendinga í kvöld)
Íslenska U 18 ára liðið í karlaflokki lá í sínum fyrsta leik á Norðurlandamótinu í kvöld þegar þeir biðu lægri hlut gegn Finnum, 69-84. Örn Sigurðarson var atkvæðamestur í íslenska liðinu með 15 stig en þéttur varnarleikur Finna gerði Íslendingum erfitt fyrir í sókninni þó Frónverjum hér í Solna hafi þótt Finnarnir ansi oft hafa fengið að ganga vasklega fram í sínum varnartilburðum.
Liðunum gekk illa að skora framan af leik og í stöðunni 2-4 fyrir Finna átti Ólafur Geimgengill Ólafsson tilþrif leiksins þegar hann varði sniðskot frá einum leikmanni Finna nánast upp í stúku. Tilþrifin höfðu þó ekki tilsett áhrif því Finnar sigu framúr og leiddu 11-15 eftir fyrsta leikhluta.
Í öðrum leikhluta hertu Finnar tökin og léku þétta vörn. Þeir hrintu íslenska liðinu út úr flestum sóknaraðgerðum sínum en Íslendingar töpuðu 23 boltum í fyrri hálfleik einum. Staðan í leikhléi var 22-35 fyrir Finna. Leikstjórnandinn Ægir Þór Steinarsson fékk slæmt högg á vinstra hnéð undir lok fyrri hálfleiks og lék ekki meira með í leiknum. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari U 18 ára liðsins tjáði Karfan.is að Ægir ætlaði sér að bíta á jaxlinn og yrði með á morgun þegar liðið mætir heimamönnum í Svíþjóð.
Ísland komst aldrei nærri í síðari hálfleik og héldu Finnar fengnum hlut allt þar til lokaflautið gall. Lokatölur leiksins voru 69-84 Finnum í vil.
{mosimage}
Stigaskor Íslands í leiknum
Örn Sigurðarson 15
Sigfús Árnason 10
Víkingur Sindri Ólafsson 10
Haukur Óskarsson 9
Tómas Tómasson 6
Þorgrímur Guðni Björnsson 5
Ólafur Ólafsson 5
Guðmundur Auðunn Gunnarsson 4
Ægir Þór Steinarsson 4
Snorri Páll Sigurðsson 1
{mosimage}



