15:30
{mosimage}
(Hjalti í leik með Fjölnismönnum)
Fjölnismaðurinn Hjalti Vilhjálmsson hefur ákveðið að leika áfram í Iceland Express deild karla og mun ganga til liðs við nýliða Breiðabliks. Þeir bræðurnir Hörður og Hjalti Vilhjálmssynir verða því áfram andstæðingar í úrvalsdeild og eiga það sameiginlegt að skipta báðir um lið fyrir næstu leiktíð en nýverið gekk Hörður í raðir Keflavíkur.
Hjalti staðfesti í samtali við Karfan.is að hann yrði með Blikum á næstu leiktíð en Hjalti hefur verið að glíma við töluvert af meiðslum síðustu tímabil. ,,Ég hef ekki spilað mikið síðustu ár sökum meiðsla en það eru ökklinn og bakið sem hafa verið að há mér, ég er annars mjög góður núna en tókst reyndar að kjálkabrjóta mig á dögunum,” sagði Hjalti sem fékk högg á lúðurinn og kjálkabrotnaði fyrir vikið og mun því ekki hefja æfingar með Blikum fyrr en í ágúst.
Hjalti hefur alið manninn í Grafarvogi og er þekktur fyrir mikla baráttu. Hann telur að Fjölnismenn eigi eftir að standa sig vel í 1. deildinni. ,,Þeir eru með gott lið fyrir 1. deildina á næstu leiktíð og ættu að komast í toppbaráttuna ef ekki aftur upp í úrvalsdeild. Þarna er samt mikið af ungum strákum sem hefðu gott af því að taka jafnvel tvö ár í 1. deild,” sagði Hjalti en afhverju Breiðablik?
,,Af hverju ekki? Það voru Breiðablik og ÍR sem komu til greina hjá mér en ég ætlaði ekki út úr Reykjavík þar sem ég er hér í háskólanámi. Það var svo dúkurinn í Seljskóla sem gerði útslagið og ég valdi Breiðablik,” sagði Hjalti en einmitt þessa dagana standa yfir framkvæmdir við að parketleggja í Smáranum.
Nú fór bróðir þinn nýlega yfir í Keflavík. Hvernig líst þér á þau skipti hjá honum?
,,Mér líst ágætlega á það fyrir hann en Keflavík er alltaf Keflavík,” sagði Hjalti sposkur.
Þrátt fyrir að ganga til liðs við Blika hefur Hjalti ekki alveg sagt skilið við Grafarvoginn þar sem hann mun þjálfa 10. flokk og 7. flokk Fjölnis á næstu leiktíð.
Töluvert hefur verið um leikmannaskipti á íslenska markaðnum undanfarið og inntum við Hjalta eftir því hvort hann myndi eftir öðru eins.
,,Nei, mér finnst þetta óvenju miklar breytingar og því nokkuð erfitt að rýna inn í næstu leiktíð. Grindvíkingar hafa safnað vel að sér og verða mjög góðir og það tekur hellings pressu af öðrum liðum en ég man ekki eftir að hafa séð jafn sterkt lið í júnímánuði og Grindvíkingar eru nú,” sagði Hjalti sem lék 15 deildarleiki með Fjölni á síðustu leiktíð og gerði í þeim 3,9 stig í leik.
Mynd: Stefán Þór Borgþórsson, [email protected]



